Treysti á dýrvitlausa KA-menn

Bergsveinn Ólafsson tæklar hér Þorstein Má Ragnarsson niður. Hann fékk …
Bergsveinn Ólafsson tæklar hér Þorstein Má Ragnarsson niður. Hann fékk gult spjald fyrir en var ekki rekinn af velli, eins og fyrst var útlit fyrir. Ljósmynd/Alfons

„Stig á móti FH er alltaf gott en í þessari baráttu sem við erum í hefðu þrjú verið mikið betri. En við verðum bara að taka því og vera sáttir úr því að ÍBV tapaði,“ sagði Þorsteinn Már Ragnarsson sem bar fyrirliðabandið og skoraði mark Víkings Ó. í 1:1-jafntefli við FH í næstsíðustu umferð Pepsi-deildarinnar í dag.

Víkingur er nú stigi á eftir ÍBV fyrir lokaumferðina, í fallsæti. ÍBV er auk þess með mun betri markatölu. Víkingar þurfa því að vinna ÍA á Akranesi og treysta á að ÍBV vinni ekki KA í Eyjum.

„Við þurfum að byrja á því að treysta á okkur sjálfa og vinna leikinn við ÍA. Svo þurfum við að treysta á að KA fari til Eyja og klári þetta fyrir okkur. Það er leiðinlegt að vera í þeirri stöðu að þurfa að treysta á aðra en við þurfum að byrja á því að gera okkar,“ sagði Þorsteinn, sem ber engu að síður von í brjósti um að KA standi sig í Eyjum:

„Já, að sjálfsögðu. Ég treysti á að KA-menn fari dýrvitlausir til Eyja og klári tímabilið með sigri.“

Völlurinn í Ólafsvík var rennandi blautur, pollar víða og drulla, og hafði það áhrif á leikinn:

„Aðstæður voru auðvitað frekar skrautlegar en mér fannst liðin spila ágætlega út úr því. Við fengum dauðafæri rétt eins og þeir, og vorum bara sáttir við að vera 1:0 yfir í hálfleik,“ sagði Þorsteinn. Eina mark FH kom svo í seinni hálfleik, úr vítaspyrnu sem dæmd var á Kwame Quee:

„Ég sá þetta ekki nógu vel. Ég verð bara að vona að dómarinn hafi haft rétt fyrir sér að dæma þetta víti,“ sagði Þorsteinn.

Virtist nokkuð ljótt og rautt spjald

Undarlegt atvik varð á 84. mínútu þegar Bergsveinn Ólafsson braut á Þorsteini með slæmri tæklingu. Þorvaldur Árnason gaf Bergsveini gult spjald, en lyfti svo rauða spjaldinu í kjölfarið þó að Bergsveinn hefði ekki verið búinn að fá áminningu í leiknum. Eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðarmenn sína leiðrétti Þorvaldur sig og lét gula spjaldið nægja. En telur Þorsteinn að um beint rautt spjald hefði átt að vera að ræða?

„Þetta virtist vera nokkuð ljótt og fyrir mér er þetta bara rautt spjald, að fara með sólann beint í ökklann á manni. Ég skal ekki segja hvort þetta [innsk.: að Þorvaldur hafi talið Bergsvein kominn með gult spjald] hafi truflað hann eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert