Fjölnir er með símann opinn í þjálfaraleit

Ágúst Gylfason er farinn frá Fjölni sem leitar nú nýs …
Ágúst Gylfason er farinn frá Fjölni sem leitar nú nýs þjálfara. mbl.is/Eva Björk

„Við kveðjum Gústa með söknuði, hann er búinn að vera hluti af Fjölnisfjölskyldunni í tíu ár en menn kveðjast sáttir,“ sagði Kristján Einarsson, formaður meistaraflokksráðs Fjölnis í knattspyrnu, í samtali við mbl.is en Ágúst Gylfason var í morgun kynntur sem nýr þjálfari Breiðabliks eftir að hafa stýrt Fjölni í rúm sex ár.

Ágúst var samningsbundinn út næsta ár og ekki stóð annað til en að hann héldi áfram sínu starfi hjá Fjölni.

„Það var gagnkvæmt uppsagnarákvæði í samningnum, en það stóð ekkert annað til en að hann myndi halda áfram. Svo kom þetta upp og gerðist mjög hratt. Við vildum halda honum og erum svekktir að missa hann, en kveðjum hann með virktum og allir eru sáttir,“ sagði Kristján, en menn ætla að vanda sig hvað varðar næstu skref í Grafarvoginum.

„ Nú drögum við bara andann og metum okkar stöðu. Við viljum halda áfram okkar stefnu að byggja á okkar ungu strákum eins mikið og við getum. Það eru ekki tíð þjálfaraskipti í Grafarvoginum og við teljum að þetta sé áhugaverður vinnustaður og skemmtilegt umhverfi að koma í. Við ætlum að vanda okkur í þessu og teljum þetta góðan kost fyrir þjálfara sem vill fylgja okkar stefnu,“ sagði Kristján.

Eins og hann segir þá gerðist þetta mjög hratt og engar viðræður eru hafnar við aðra þjálfara.

„Við erum bara rólegir, rétt komnir í þessa stöðu. Síminn er bara opinn,“ sagði Kristján Einarsson í samtali við mbl.is.

Fjölnismenn hafa aðeins verið með tvo þjálfara með karlalið sitt í meistaraflokki frá árinu 2005 þegar Ásmundur Arnarsson tók við liðinu. Hann þjálfaði það til 2011 og Ágúst, sem var aðstoðarþjálfari með honum í þrjú ár, hefur síðan stýrt Fjölni síðustu sex árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert