Tekur afstöðu gegn þolendum og verður ekki saknað

Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í landsliðshópinn og Jóhann …
Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í landsliðshópinn og Jóhann Berg Guðmundsson hefur dregið sig úr honum. Eggert Jóhannesson

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, konan sem steig fram og greindi frá ofbeldi Kolbeins Sigþórssonar í sinn garð í því skyni að benda á að KSÍ hafi ekki sagt satt og rétt frá ofbeldismálum, sem varð til þess að stjórn KSÍ meinaði Arnari Þór Viðarssyni landsliðsþjálfara að velja hann í síðasta landsliðsverkefni, sendir Jóhanni Berg Guðmundssyni tóninn eftir að hann dró sig úr hópnum fyrir komandi landsliðsverkefni.

Jóhann Berg tilkynnti í gær að hann væri búinn að draga sig úr íslenska landsliðshópnum sem mætir Armeníu og Liechtenstein í þessari og næstu viku.

Hann sagði svo í viðtali við 433.is í dag að mál KSÍ undanfarnar vikur hefði haft áhrif á þá ákvörðun sína, enda þótt hann hafi fyrst og fremst tekið hana þar sem hann sé tæpur vegna meiðsla og vilji gera allt sem í hans valdi stendur til að vera í sem bestu formi með Burnley í vetur. 

„Ég get alveg viðurkennt að það hafði áhrif á ákvörðun mína í þetta sinn að ég hef ekki verið fyllilega sáttur við vinnubrögð sambandsins undanfarin misseri,“ sagði Jóhann Berg við 433.is.

Þórhildur Gyða leggur út af þessum ummælum Jóhanns Bergs á twitteraðgangi sínum í dag og skrifar:

„Ok [ég næ þessu], það er svona erfitt að trúa þolendum þegar það veldur því að ógeðis vinir þínir mega ekki spila með þér boltaleik.

Gerendameðvirknin og forréttindablindan er alveg að fara með þig. Þú tekur afstöðu gegn þolendum og ert því engin fyrirmynd, þín verður ekki saknað[.]“

Kolbeinn er ekki í landsliðshópnum að þessu sinni, hann er meiddur og kom því ekki til greina og þá hefur Aron Einar Gunnarsson fyrirliði gagnrýnt það að hann hafi ekki verið valinn í hópinn.

Telur Aron Einar að hann hafi ekki verið valinn vegna útilokunarmenningar innan veggja KSÍ í tengslum við orðróm um að hann hafi átt aðild að hópnauðgun á íslenskri konu í Kaupmannahöfn árið 2010.

Það mál hefur verið tekið upp að nýju af lögreglunni hérlendis að beiðni konunnar og hafði Aron Einar í yfirlýsingu, áður en RÚV greindi frá að það hefði verið tekið upp að nýju, sagst fús til þess að fara í skýrslutöku hjá lögreglunni vegna þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert