Gylfi varð eftir á Spáni

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Ljósmynd/Valur

Gylfi Þór Sigurðsson, nýr leikmaður Vals, varð eftir á Spáni þegar liðsfélagar hans og annað starfsfólk ferðaðist heim til Íslands úr æfingaferð á laugardag.

Gylfi Þór hafði verið í endurhæfingu á Spáni undanfarnar vikur og samkvæmt 433.is ferðaðist hann aftur þangað sem hann hafði dvalið á meðan aðrir héldu heim á leið.

Miðjumaðurinn hefur æft af fullum krafti með Val undanfarna daga og æfði með Fylki, sem var einni á æfingaferðalagi á Spáni, þar á undan.

Samkvæmt 433.is er Gylfi Þór væntanlegur til landsins í dag og missir ekki af neinni æfingu með Val þar sem Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, gaf leikmönnum tveggja daga frí eftir heimkomu.

Gæti hann spilað sinn fyrsta leik fyrir liðið á miðvikudag þegar Valur mætir ÍA í undanúrslitum deildabikarsins á Hlíðarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert