Stjarnan og Fram skildu jöfn, 1:1, í fyrsta leik 6. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á Stjörnuvellinum í Garðabæ í kvöld. Fram er í þriðja sæti með ellefu stig og Stjarnan í fjórða sæti með tíu.
Stjörnumenn voru sterkari og sköpuðu sér tvö fín færi snemma leiks en Ólafur Íshólm Ólafsson byrjaði vel í markinu. Fyrst varði hann frá Emil Atlasyni og síðan Guðmundi Baldvin Nökkvasyni.
Hann kom hins vegar engum vörnum við á 30. mínútu er Óli Valur Ómarsson skoraði fyrsta mark leiksins. Hann skallaði boltann þá laglega í hornið fjær eftir fallega fyrirgjöf Hilmars Árna Halldórssonar.
Hvorugt liðið var sérlega líklegt til að skora það sem eftir lifði hálfleiks og var Stjarnan því með verðskuldað 1:0 forskot í hálfleik.
Stjarnan var áfram með völdin framan af í seinni hálfleik en gekk illa að skapa sér færi. Hinum megin sköpuðu Framarar sér lítið, en þrátt fyrir það voru það gestirnir sem skoruðu næsta mark.
Guðmundur Magnússon sá um það með fallegri afgreiðslu í teignum eftir að Haraldur Einar Ásgrímsson skallaði boltann á hann. Hvorugt liðið var nálægt því að skora annað markið sitt næstu mínútur og var staðan enn 1:1 þegar 85 mínútur voru komnar á klukkuna.
Hvorugt liðið skapaði sér teljandi færi eftir það og var stigunum því skipt í Garðabæ í kvöld.