Liðin hjá Lars eru illsigranleg

Roy Hodgson ræðir við sína menn á Allianz Riviera leikvanginum …
Roy Hodgson ræðir við sína menn á Allianz Riviera leikvanginum eftir fréttamannafundinn í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, sagði á fréttamannafundi á Allianz Riviera leikvanginum í Nice fyrir stundu að það væri afar erfitt að sigra lið þar sem Lars Lagerbäck væri við stjórnvölinn.

„Ég tel að Íslendingar eigi Lars Lagerbäck og landa hans Roland Andersson (einn aðstoðarmanna landsliðsþjálfaranna) mikið að þakka. Ég þekki ekki íslenska félaga hans í þjálfarastarfinu en hann á örugglega sinn þátt líka í velgengni íslenska landsliðsins. Lars er mjög góður skipuleggjandi, hann fær það allra besta út úr þeim liðum sem hann stjórnar og gerir þau illsigranleg. Íslenska liðið er skipað leikmönnum sem leggja mjög hart að sér hver fyrir annan og raunar höfum við séð mörg slík lið standa sig vel á þessu móti," sagði Hodgson.

Lifa af við erfiðar aðstæður

„Ég þekki minna til Íslendinga en hinna Norðurlandaþjóðanna en er viss um að sá karakter og ákveðni sem felst í því að lifa af við erfiðar aðstæður hefur haft sitt að segja í þeirra uppgangi. Okkar verkefni hefur verið að finna leiðir til að sigra þá í þessum leik. Við erum sigurstranglega liðið, þeir eru litla liðið í augum flestra, en við vitum að við erum að fara í afar erfiðan leik á móti liði sem afar erfitt er að sigra," sagði Hodgson.

Hann var spurður um kynni sín af Lars Lagerbäck en þeir kynntust í Svíþjóð á áttunda áratug síðustu aldar þegar Hodgson fór þangað til að þjálfa lið Halmstad, þá aðeins 28 ára gamall. „Lars er í hópi margra góðra manna sem ég kynntist á mínum tíma í Svíþjóð, hann er örlítið yngri en ég, og ég tengdist honum nánum böndum eins og mörgum kollegum mínum þar á þeim tíma. Hann hefur gert frábæra hluti fyrir sænska knattspyrnu."

Missti af Frökkunum

Frakkar unnu Íra fyrr í dag og verða mótherjar Íslands eða Englands í átta liða úrslitunum. Hodgson var spurður hvort hann hefði fylgst með Frökkunum í dag.

„Ég missti nú alveg af því, við sáum fyrstu fimm mínúturnar á flugvellinum en svo fórum við út í vél og svo lentum við um það leyti sem leikurinn var flautaður af. Ég hef því ekkert séð til þerra. Ef við verðum svo heppnir að komast áfram, munum við skoða fullt af leikjum með Frökkum og undirbúa okkur undir að mæta þeim. En því miður er Ísland með nákvæmlega sama markmið og við í þessum efnum!" svaraði Hodgson.

Margir möguleikar í sókn og á miðju

Spurður um hvort hann væri búinn að finna út vandamálin í sóknarleiknum, þar sem liðinu hefði gengið illa að skora þrátt fyrir að vera mikið með boltann svaraði enski landsliðsþjálfarinn: „Ég er mjög ánægður með alla okkar sóknarmenn. Fótboltinn er þannig að maður veit aldrei fyrirfram hvað menn gera nákvæmlega þegar í leikinn er komið en ég reyni að velja besta mögulega liðið fyrr hvern leik. Ef það gengur ekki upp er ég með marga möguleika á varamannabekknum, þar erum við með fullt af góðum sóknarmönnum og miðjumönnum, og það er virkilega mikilvægt fyrir okkur varðandi það að komast lengra á þessu móti.“

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin