„Ég fæ þvílíkan stuðning“

„Þetta var ekki auðvelt, en það hjálpaði gríðarlega mikið að hafa sterka karaktera í kringum sig. Stelpurnar í kringum mig eru magnaðar og það hjálpaði,“ sagði Elín Metta Jensen við mbl.is, daginn eftir grátlegt 1:0-tap Íslands gegn Frakklandi.

Sigurmark Frakka kom úr vítaspyrnu sem dæmd var á Elínu Mettu fyrir meint brot á Amandine Henry, skömmu fyrir leikslok. Valskonan var ósátt við dóminn:

„Mér fannst hún láta sig detta fullauðveldlega, en það eru kannski bara klókindi hjá henni að finna einhverja snertingu og láta sig bara detta.“

Elín Metta var skiljanlega afar vonsvikin eftir leik í gærkvöld og í samráði við Frey Alexandersson þjálfara var hún ekki til viðtals strax eftir leik eins og aðrir leikmenn. Hún kveðst hafa fengið mikinn stuðning og er farin að beina sjónum sínum að næsta leik á EM, sem er gegn Sviss á laugardag.

„Ég fæ þvílíkan stuðning frá liðsfélögunum, þjálfurunum og mínum nánustu. Svo hefur verið eitthvað um það að fólk sé að senda manni skilaboð og segja að þetta hafi verið frekar óréttlátur dómur. Auðvitað er gott að heyra það, sérstaklega frá liðinu. Það er það sem skiptir mestu máli núna, að við stöndum saman,“ sagði Elín Metta, sem fær meðal annars stuðning frá herbergisfélaga sínum, Málfríði Ernu Sigurðardóttur, elsta leikmanni íslenska hópsins:

„Hún er algjör viskubrunnur og það eru forréttindi að fá að vera með henni í herbergi.“

Nánar er rætt við Elínu Mettu í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 6. MAÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 6. MAÍ

Útsláttarkeppnin