Öruggur íslenskur sigur á Spánverjum

Róbert Gunnarsson skoraði fimm mörk í sigurleiknum á Spánverjum í …
Róbert Gunnarsson skoraði fimm mörk í sigurleiknum á Spánverjum í Bercy-höllinni í París í dag. Ragnar Axelsson

Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann í dag öruggan sigur á Spánverjum, 30:27, á æfingamóti í Bercy-höllinni í París. Ísland var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og spænska liðinu tókst aðeins að jafna metin í þrígang í leiknum. Forysta Íslands var tvö mörk að loknum fyrri hálfleik, 14:12. Á morgun mætir Ísland annað hvort Frakklandi eða Brasilíu í úrslitaleik í mótinu en Frakkar og Brasilíumenn eigast við á eftir.

Myndasyrpa.

Íslenska liðið lék vel í dag, einkum þó í vörninni. Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í marki Íslands, aðallega í síðari hálfleik, en þá féll Arpad Sterpik, markvörður spænska landsliðsins og Ciudad Real, algjörlega í skuggann kollega sínum í íslenska markinu. 

Fylgst var með leiknum í textalýsingu á mbl.is.

60. Ísland var öruggan og góðan sigur á spænska liðinu eftir að hafa verið með yfirhöndina allan leiktímann.

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 6, Ólafur Stefánsson 5/1, Róbert Gunnarsson 5, Snorri Steinn Guðjónsson 5/3, Alexander Petersson 3, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Sverre Jakobsson 2, Arnór Atlason 1, Ingimundur Ingimundarson, 1.
Björgvin Páll Gústavsson lék allan tímann í marki Íslands. Hann varði 19 skot, þar af 14 í síðari hálfleik þegar hann fór á kostum, 41% markvarsla.
Utan vallar: 16 mínútur.

Mörk Spánar: Juan Garcia 6, Cristian Malmagro 5, Iker Romero 3, Chema Rodríguez 3, Alberto Enterríos 2, Eduardo Gurbindo 2, Viktor Tomás 2, Raúl Enterríos 2, Julien Aguinagalde 2.
Arpad Sterpik varði 18 skot í markinu, 38% markvarsla. José Javier Hombrados kom aðeins einu sinni inn á leikvöllinn þegar hann freistaði þess að verja vítakasti. Það lánaðist honum ekki að verja.
Utan vallar: 6 mínútur.
Dómarar: D. Reibel og T. Dentz frá Frakklandi.

55. Ísland  komið með fjögurra marka forskot eftir mark Ólafs Stefánssonar úr vítakasti. Ingimundur Ingimundarson var að fá sína þriðju brottvísun. Hann kemur ekki meira við sögu í leiknum og íslenska liðið verður einum manni færra næstu tvær mínútur. Björgvin Páll var að verja sitt 17. skot í leiknum. Hann hefur verið frábær í síðari hálfleik.

52. Björgvin Páll hefur farið á kostum í marki Íslands í síðari hálfleik. Ísland komst í þriggja marka forskot, 22:19. Spánverjar tóku þá leikhlé og lánaðist að minnka muninn í eitt mark í framhaldinu. Ingimundi var vísað af leikvelli í annað sinn í leiknum. Spænska liðinu tókst ekki að færa sér það í nyt. Staðan nú 25:22, eftir að Alexander og Róbert skoruðu sitt hvort markið með skömmu millibili.

45. Ísland er á ný komið tveimur mörkum yfir, 21:19. Góður varnarleikur og markvarsla hefur skilað íslenska liðinu forskoti á nýjan leik. Björgvin Páll hefur varið nokkur skot síðustu mínútur. Guðjón Valur og Ásgeir Örn skoruðu 20. og 21. mark Íslands. Fyrsta mark Ásgeirs Arnar í leiknum.

39. Staðan er jöfn 18:18. Hlutirnir gerast hratt og Spánverjar hafa nú jafnað metin eftir að íslenska liðið var um tíma tveimur leikmönnum færra á vellinum. Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson var vísað af leikvelli í tvær mínútur með skömmu millibili. Spánverjar nýttu sér liðsmuninn til hins ýtrasta. Þetta var önnur brottvísun Alexanders í leiknum.

35. Mikill kraftur er í íslenska liðinu á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Björgvin hefur varið vel í markinu. Ísland er með þriggja marka forskot, 18:15, og átti þess kost að ná fjögurra marka forskoti en Sterpik í marki Spánverja kom í veg fyrir það með góðri markvörslu þegar hann varði skot  Snorra Steins.

31. Íslenska liðið hefur síðari hálfleik af krafti. Guðjón Valur vinnur vítakasti sem Snorri Steinn skorar úr af öryggi, staðan 15:12, fyrir Ísland.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks og íslenska liðið er tveimur mörkum yfir, 14:12. Ásgeir Örn Hallgrímsson gat kom íslenska liðinu í þriggja marka forskot á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks en Sterpik í marki Spánverja varði skot hans. Eftir að hafa verið undir nær allan fyrri hálfleik þá jöfnuðu Spánverjar, 11:11, eftir rúmlega 24 mínútna leik og aftur 12:12, skömmu síðar. Íslenska liðið náði forystu á ný með mörkum frá Snorra Steini úr vítakasti og Ólafi Stefánssyni þrátt fyrir að vera manni færri síðustu 1,45 mínútur af fyrri hálfleik eftir að Sverre Jakobssyni var vísað af leikvelli.
Mörk Íslands: Róbert Gunnarsson 4, Sverre Jakobsson, 2, Alexander Petersson 2, Snorri Steinn Guðjónsson 2/1, Ólafur Stefánsson 2, Guðjón Valur Sigurðsson 1, Ingimundur Ingimundarson 1.
Björgvin Páll Gústavsson varði 5 skot í marki Íslands, 29% markvarsla. Sterpik hefur farið á kostum í marki Spánverja með 11 skot, 42% markvarsla.

Allir úr 16 manna EM hópnum eru á leikskýrslu í dag. Vignir Svavarsson, Hreiðar Guðmundsson, Ólafur Guðmundsson, Sturla Ásgeirsson og Aron Pálmarsson komu ekkert við sögu í fyrri hálfleik.

22. Spánverjar hafa minnkað muninn í eitt mark og nýtt sér vel að vera leikmanni fleiri á vellinum núna eftir að Ingimundi var vísað af leikvelli í tvær mínútur. Spænska liðið hefur skorað tvö síðustu mörk leiksins, staðan, 10:9, fyrir Ísland.

15. Íslenska liðið heldur frumkvæði sínu í leiknum. Spánverjar hafa verið einum leikmanni færri síðustu mínútu. Illa hefur gengið að færa sér liðsmuninn í nyt. Róbert hefur skorað þrjú af mörkum Íslands og markahæstur. Sterpik fer á kostum í marki Spánverja, hann hefur varið nærri helming þeirra skota sem á markið hefur komið. Staðan, 8:5, fyrir Ísland.

10. Talsvert hefur verið um mistök á báða bóga síðustu mínútur, slæmar sendingar og óvönduð skot. Íslenska liðið heldur frumkvæði sínu og Róbert var að skora sitt fyrsta mark í leiknum og sjötta mark Íslands, staðan er 6:4.

5. Íslenska landsliðið fer ágætlega af stað þótt Arpad Sterpik reynist því erfiður í marki Spánverja. Staðan er 3:2. Ingimundur, Snorri Steinn og Alexander hafa skorað mörkin.

1. Ingimundur Ingimundarson skorar fyrsta mark Íslands eftir hraðaupphlaup. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert