Crespo vill hefnd gegn Liverpool

Hernan Crespo vonast til þess að geta fagnað svona innilega …
Hernan Crespo vonast til þess að geta fagnað svona innilega í kvöld. Reuters

Hernan Crespo, argentínski knattspyrnumaðurinn hjá Inter Mílanó, kveðst eiga harma að hefna gegn Liverpool og segir að sig dreymi um að skora úrslitamark í viðureign liðanna á San Siro í kvöld þegar þau mætast í Meistaradeild Evrópu.

Crespo lék með AC Milan gegn Liverpool vorið 2005 í úrslitaleiknum ótrúlega í Istanbúl þegar Liverpool vann upp 3:0 forskot ítalska liðsins og sigraði síðan í vítaspyrnukeppni.

„Það yrði mjög sérstakt fyrir mig að skora gegn Liverpool, vegna þess hve ósigurinn gegn liðinu í úrslitaleiknum með AC Milan situr enn fast í minninu. Sigur á Liverpool yrði sæt hefnd fyrir það. Ég get aldrei gleymt því sem gerðist þetta kvöld og hvernig við misstum forystuna niður á ótrúlegan hátt í seinni hálfleik. Slíkt og annað eins gerist bara í eitt skipti af þúsund í fótboltanum," sagði Crespo við Sky Sports.

Liverpool stendur vel að vígi eftir að hafa unnið fyrri leikinn á Anfield, 2:0. Inter þarf því á þriggja marka sigri að halda í kvöld, eða þá 2:0 sigri og síðan vítaspyrnukeppni.

„Þetta verður mjög erfitt, það er ekki einfalt mál að skora tvö mörk hjá Liverpool en það er ekki ógerlegt. Fyrir okkur er þetta eins og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar og við þurfum að spila fullkomlega. Lykillinn að því er góður varnarleikur, það er nauðsynlegt að fá ekki á sig mark, og jafnframt að komast yfir sem fyrst í leiknum. Ef við verðum 1:0 yfir í hálfleik getur kraftaverkið gerst.

Inter er ekki lélegra lið en Liverpool og úrslitin á Anfield, 2:0, segir ekki allt. Við teljum að Liverpool komi hingað og beiti skyndisóknum, sem er áhættusamt fyrir okkur, en eftir tapið í Englandi verðum við að tefla djarft," sagði Hernan Crespo.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert