Benítez: Styrkur og breidd í liðinu

Dirk Kuyt fagnar eftir að hafa jafnað metin, 2:2.
Dirk Kuyt fagnar eftir að hafa jafnað metin, 2:2. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að styrkurinn og breiddin í sínu liði hefðu gert gæfumuninn í gærkvöld þegar það náði að knýja fram sigur á Portsmouth á útivelli, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni, - með því að skora tvívegis undir lok leiksins.

Hermann Hreiðarsson kom Portsmouth í 2:1 á 79. mínútu með skallamarki og þá benti ekkert til þess að Liverpool myndi hirða öll þrjú stigin og komast uppfyrir Manchester United og í toppsæti deildarinnar. En Dirk Kuyt jafnaði á 85. mínútu og Fernando Torres skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Þeir komu báðir inná sem varamenn í síðari hálfleik, ásamt Xabi Alonso.

„Breiddin í liðinu er góð, það sést á því hverjir spiluðu leikinn og vonandi getum við haldið okkur við toppinn. Ég tel að það séu næg gæði í liðinu. Við vissum að það yrði erfitt að halda sér lengi í efsta sætinu en við erum þar enn á ný og viljum vera með í baráttunni til loka," sagði Benítez og útskýrði hvers vegna hann hefði látið þrjá af sínum lykilmönnum bíða á varamannabekknum framí síðari hálfleik.

„Torres, Kuyt og Alonso voru mjög þreyttir. Við höfðum leikið með 10 menn í framlengingu gegn Everton og ég ráðgaðist því við sjúkraþjálfara og lækna um liðsvalið. Þetta var ekki áhætta, þeir voru þreyttir, og ég hafði trú á mínu liði. Menn sýndu mikinn sigurvilja, styrk og rétt hugarfar," sagði Benítez við Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert