Guðjón: Verðskuldað stig hjá strákunum

Guðjón Þórðarson
Guðjón Þórðarson www.crewealex.net

Guðjón Þórðarson hrósaði leikmönnum sínum enn einn ganginn eftir að liðið náði jöfnu gegn Walsall í ensku 2. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Það stóð tæpt hjá lærisveinum Guðjóns en Crewe jafnaði metin þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

,,Við verðskulduðum eitthvað út úr þessum leik og ég verð að hrósa báðum liðum fyrir skemmtilegan leik. Við fengum fullt af færum og framherjar okkar verða að nýta færin sín betur. Markvörður þeirra var okkur líka erfiður. Hann var hreint frábær og varði í þrígang meistaralega,“ sagði Guðjón á vef Crewe eftir leikinn.

,,Ég held að þetta hafi verið fyrsta jafntefli liðsins undir minni stjórn en þetta var gott stig sem við fengum gegn mjög góðu liði,“ sagði Guðjón en lið hans er áfram í 19. sæti deildarinnar. 

Guðjón hefur nú stýrt Crewe í 12 deildarleikjum. Liðið hefur unnið 7 leiki, tapað 4 og gert eitt jafntefli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert