Ferguson svarar Benítez

Knattspyrnustjórarnir Sir Alex Ferguson og Rafael Benítez.
Knattspyrnustjórarnir Sir Alex Ferguson og Rafael Benítez. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United og kollegi hans hjá Liverpool, Rafael Benítez, hafa átt hörð orðaskipti í breskum fjölmiðlum síðustu vikur og mánuði og ekkert lát er á þeim. Benítez hefur látið Ferguson fá það óþvegið að undanförnu en á fréttamannafundi á Old Trafford í dag svaraði Ferguson fyrir sig.

Benítez lét hafa eftir sér í janúar að Manchester United fengi sérmeðferð hjá dómurum og í vikunni sagði hann að Ferguson óttaðist mjög lið Liverpool.

,,Það áhugaverðasta hjá Benítez fyrir Evrópuleikinn var að ræða um mig. Það er frábært. Ég vissi ekki að ég væri svona mikilvægur,“ sagði Ferguson þegar hann ræddi við fréttamenn fyrir leik sinna manna gegn Sunderland á morgun.

Spurður meira út í Benítez sagði Ferguson og brosti; ,,Ég hef ekki meira að segja um hann.“

Fyrir leiki morgundagsins hefur Manchester United eins stigs forskot á Liverpool í toppsætinu en United á auk þess leik til góða. Liverpool tekur á móti Blackburn í hádeginu en United sækir Sunderland heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert