Gill útilokar ekki að draga upp veskið til að leysa mál Tévez

Carlos Tévez hefur oftar en ekki vermt varamannabekkinn á tímabilinu.
Carlos Tévez hefur oftar en ekki vermt varamannabekkinn á tímabilinu. Reuters

David Gill framkvæmdastjóri Manchester United hefur ekki útlokað að United greiði 25,5 milljónir punda, 5,1 milljarð króna, sem óskað hefur verið eftir til að halda Argentínumanninum Carlos Tévez í herbúðum félagsins.

Tveggja ára lánssamningur Tévez rennur út í næsta mánuði og hefur ríkt óvissa með framtíð hans hjá Manchester-liðinu. Gill segir í viðtali við BBC að Kia Joorabchian, sem hefur umráð yfir Argentínumanninum, vilji fá 25,5 milljónir punda sem jafngildir rúmlega 5,1 milljarði íslenskra króna. Sú upphæð finnst framkvæmdastjóra Englandsmeistaranna ansi há.

,,Þar með er ekki sagt að við viljum ekki greiða þessa upphæð,“ sagði Gill við BBC en Tévez hefur að undanförnu verið orðaður við mörg félög, þar á meðal Liverpool.

Tévez hefur ekki verið sáttur við hlutskipti sitt hjá Manchester United á þessari leiktíð en hann hefur verið mikið á bekknum. Argentínumaðurinn hefur þó náð að skora 15 mörk á tímabilinu og í mörgum leikjum hefur innkoma hans breytt gangi mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert