Martínez tekur við hjá Wigan

Reuters

Roberto Martínez verður næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Wigan. Formlega verður tilkynnt um ráðninguna á morgun en Dave Whelan stjórnarformaður Wigan staðfesti við Sky Sports í kvöld að gengið hefði verið frá þriggja ára samningi við Spánverjann.

Martínez, sem er 35 ára gamall Spánverji, lék áður í sex ár með Wigan en hann hefur verið knattspyrnustjóri Swansea City frá Wales undanfarin tvö ár og náð þar frábærum árangri. Fyrst stýrði hann liðinu uppí ensku 1. deildina og þar var liðið í baráttunni í efri hlutanum á nýliðnu tímabil og þótti af mörgum spila bestu knattspyrnuna af öllum liðum deildarinnar.

Martínez kom 22 ára gamall frá Real Zaragoza til Wigan árið 1995 og spilaði 188 deildaleiki fyrir félagið á sex árum. Þaðan fór hann til Motherwell í Skotlandi, síðan til Walsall í Englandi, en spilaði síðan með Swansea í þrjú ár. Þaðan fór hann til Chester City og lauk ferilnum sem leikmaður þar vorið 2007 og hafði þá spilað 416 deildaleiki á ferlinum, þar af yfir 360 á Bretlandseyjum.

Þá kom hann aftur til Swansea og hóf þar nýjan feril sem knattspyrnustjóri, og er nú kominn í úrvalsdeildina tveimur árum síðar. Martínez tekur við liði Wigan af Steve Bruce sem á dögunum var ráðinn knattspyrnustjóri Sunderland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert