Man.Utd heldur í meistaravonina

Nani þrumar boltanum í mark Sunderland og kemur Man.Utd yfir …
Nani þrumar boltanum í mark Sunderland og kemur Man.Utd yfir í leiknum í dag. Reuters

Manchester United lagði Sunderland að velli, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stadium of Light í dag og getur því enn náð meistaratitlinum úr höndum Chelsea í lokaumferðinni.

Chelsea, sem vann Liverpool 2:0 á Anfield fyrr í dag, er með 83 stig en Manchester United er með 82. Í lokaumferðinni um næstu helgi leikur Chelsea við Wigan á Stamford Bridge og Manchester United tekur á móti Stoke á Old Trafford.

Það var Nani sem skoraði sigurmark United í dag með hörkuskoti á 28. mínútu leiksins, eftir sendingu frá Darren Fletcher.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Leik lokið með sigri Man.Utd, lokatölur 0:1.

85. Kieran Richardson, fyrrum leikmaður United, fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Nani.

78. Varnarmaður Sunderland bjargar naumlega á marklínu sinni eftir skot frá Michael Carrick.

73. Wayne Rooney er hársbreidd frá því að auka forystu United. Hörkuskot frá vítateig og boltinn strýkst við stöngina.

56. Dimitar Berbatov aftur í dauðafæri og nú skallar hann úr markteignum en í Kieran Richardson og yfir markið.

56. Phil Bardsley fellur í vítateig United en fær gula spjaldið fyrir leikaraskap. Nokkuð augljóst.

54. Wayne Rooney fær gula spjaldið fyrir brot.

52. Dimitar Berbatov fær sannkallað dauðafæri til að koma United tveimur mörkum yfir en skýtur yfir af tveggja metra færi eftir sendingu frá Wayne Rooney.

45. Hálfleikur og staðan 0:1.

40. Nemanja Vidic hjá Man.Utd fær gula spjaldið fyrir að klappa fyrir Steve Bennett dómara.

28. MARK, 0:1. Nani skorar fyrir Man. Utd með hörkuskoti hægra megin úr vítateignum eftir þunga sókn. Það er Darren Fletcher sem nær að pota boltanum fyrir fæturnar á Nani.

24. Edwin van der Sar í marki Man.Utd ver glæsilega í horn eftir hörkuskot frá Steed Malbranque hjá Sunderland.

22. Ryan Giggs fær fyrsta góða færi leiksins þegar hann á hörkuskot að marki Sunderland frá vítateig og boltinn strýkst við markvinkilinn.

United verður að vinna til að eiga áfram von um enska meistaratitilinn. Með jafntefli er Chelsea nánast orðið meistari því þá munar þremur stigum á liðunum en markatala Chelsea er 10 mörkum betri. Chelsea mætir Wigan á heimavelli í lokaumferðinni en United tekur á móti Stoke.

Liðin eru þannig skipuð:

Sunderland: Gordon, Bardsley, Turner, Mensah, Richardson, Henderson, Meyler, Cana, Malbranque, Campbell, Bent.
Varamenn: Carson, Ferdinand, Zenden, Jones, Da Silva, Kilgallon, Cattermole.

Man Utd: Van der Sar, O'Shea, Jonathan Evans, Vidic, Evra, Nani, Scholes, Fletcher, Giggs, Berbatov, Rooney.
Varamenn: Foster, Hargreaves, Ferdinand, Brown, Park, Carrick, Macheda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert