Fabregas tileinkar Arsenal sigurinn

Cesc Fabregas í dauðafæri í úrslitaleiknum en Maarten Stekelenburg markvörður …
Cesc Fabregas í dauðafæri í úrslitaleiknum en Maarten Stekelenburg markvörður Hollands varði vel frá honum. Reuters

Cesc Fabregas tileinkaði Arsenal heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu sem hann vann með Spánverjum í gærkvöld og gaf sterklega í skyn að hann myndi leika áfram með enska liðinu þrátt fyrir mikinn þrýsting  frá Barcelona undanfarna mánuði.

Fabregas kom inná undir lok venjulegs leiktíma í úrslitaleiknum í gærkvöld og lagði upp sigurmarkið fyrir Andrés Iniesta rétt fyrir lok framlengingarinnar.

„Ég tileinka þennan sigur leikmönnum og stuðningsmönnum Arsenal, sem er heimsklassa félag. Ég er leikmaður Arsenal og stoltur af því," sagði Fabregas við spænska fjölmiðla strax eftir leikinn.

Hann sagði að það fyrsta sem sér hefði dottið í hug þegar leikurinn var flautaður af hefði verið að fara og hughreysta félaga sinn hjá Arsenal, Robin van Persie, sem var andstæðingur hans í hollenska liðinu.

„Mitt fyrsta verk varð að vera að fara og hitta Robin. Ég vildi tala við hann áður en ég færi að fagna með félögum mínum. Hann hefur átt við meiðsli að stríða og þetta hefði farið öðruvísi hjá honum ef við hefðum ekki verið andstæðingar hans. Ég vona bara að hann fái annað tækifæri því hann er frábær strákur og mikill leiðtogi," sagði Fabregas um vin sinn og andstæðing í hollenska liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert