Drogba kominn framúr Greaves

Drogba fagnar marki ásamt John Terry.
Drogba fagnar marki ásamt John Terry. Reuters

Didier Drogba framherjinn skæði hjá Chelsea skráði nafn sitt í sögubækur félagsins þegar hann skoraði þrennu í 6:0 sigri liðsins á nýliðum WBA í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.

Drogba er þar með orðinn sjötti markahæsti leikmaður Chelsea frá upphafi en hann komst upp fyrir goðsögnina Jimmie Greaves. Drogba hefur skorað 134 mörk fyrir Lundúnaliðið, tveimur meira en Greaves.

Drogba skoraði 37 mörk fyrir Chelsea á síðustu leiktíð en liðið vann tvöfalt og er til alls líklegt í ár sé mið tekið af stórsigrinum á WBA.

,,Af hverju ekki 40? En ég vil frekar skora 20 mörk og vinna Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina,“ segir Drogba í viðtali við enska blaðið The Sun.

,,Þetta snýst ekki um mína frammistöðu heldur liðið og að við vinnum á tímabilinu. Jimmy Greaves er mikil goðsögn svo ég er mjög stoltur,“ sagði Drogba.

Markahæstu menn Chelsea frá upphafi:

202 Bobby Tambling
193 Kerry Dixon
158 Frank Lampard
150 Roy Bentley
150 Peter Osgood
134 Didier Drogba
132 Jimmy Greaves
125 George Mills
108 George Hilsdon




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert