Vidic samdi á ný við Man.Utd

Nemanja Vidic lék með Serbum á HM í sumar.
Nemanja Vidic lék með Serbum á HM í sumar. Reuters

Serbneski knattspyrnumaðurinn Nemanja Vidic skrifaði í dag undir nýjan fjögurra ára samning við Manchester United og batt þar með endi á vangaveltur um að hann kynni að yfirgefa félagið.

David Gill framkvæmdastjóri United upplýsti fyrir skömmu að Vidic hefði fallist á að semja að nýju og það er nú endanlega í höfn. Vidic hefur leikið með United frá ársbyrjun 2006 þegar hann kom til félagsins frá Spartak Moskva. Hann er 28 ára gamall og þykir einn sterkasti miðvörðurinn í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta drepur endanlega allar þessar heimskulegu vangaveltur sem hafa verið um hann undanfarna mánuði," sagði Alex Ferguson knattspyrnustjóri United á  vef félagsins. Meðal annars var hann orðaður við AC Milan og Real Madrid og mikið fjallað um að eiginkona hans  vildi ekki búa lengur í Englandi.

„Ég kom hingað ungur og hef tekið miklum framförum með aðstoð knattspyrnustjórans, þjálfaranna og samherjanna. Við höfum verið mjög sigursælir síðustu árin og ég hlakka til að halda þeirri velgengni áfram næstu tímabilin," sagði Vidic við undirskriftina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert