Reid skammar Kára fyrir agaleysi

Peter Reid.
Peter Reid. AP

Peter Reid, knattspyrnustjóri enska 2. deildarliðsins Plymouth Argyle, gagnrýndi Kára Árnason, lykilmann í vörn sinni, harðlega eftir ósigur liðsins gegn toppliðinu Brighton í fyrrakvöld.

Brighton vann leikinn 4:0 en undir lokin fékk Kári gula spjaldið, sitt níunda á tímabilinu, og á yfir höfði sér tveggja leikja bann ef hann fær eitt til viðbótar fyrir 10. apríl. Kári hefur auk þess tvisvar fengið rauða spjaldið í vetur og tekið út fjóra leiki í banni af þeim sökum.

„Hann verður að vera agaðri í leik sínum. Kári hefur fengið of mörg gul og rauð spjöld, sem er ekkert annað en agaleysi," sagði Reid við Western Morning News eftir leikinn, en hann skipti Kára af velli strax og hann fékk spjaldið.

Kári hefur spilað 29 af 32 leikjum Plymouth í deildinni í vetur, alla í byrjunarliðinu, en hann hefur misst af þremur deildaleikjum og einum bikarleik vegna leikbannanna.

Plymouth á erfiða baráttu fyrir höndum en 10 stig voru dregin af liðinu í vikunni fyrir að lýsa því yfir að það stefndi að greiðslustöðvun, og þar með datt það niður í neðsta sæti 2. deildarinnar. Liðið féll úr 1. deildinni síðasta vor eftir sex ára dvöl þar en þetta er annað tímabil Kára hjá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert