Drogba tryggði Chelsea sigur

Didier Drogba er hér að skora framhjá Victori Valdes.
Didier Drogba er hér að skora framhjá Victori Valdes. Reuters

Didier Drogba reyndist hetja Chelsea þegar liðið bar sigurorð af Evrópumeisturum Barcelona í fyrri rimmu liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge í kvöld.

Drogba skoraði eina mark leiksins á lokasekúndum fyrri hálfleiks eftir góða skyndisókn heimamanna. Börsungar réðu ferðinni lengst af og áttu tvö stangarskot en Chelsea-menn vörðust fimlega allan tímann og börðust eins og ljón gegn Evrópu- og Spánarmeisturunum.

90+3 Leiknum er lokið með 1:0 sigri Chelsea.

90+2 Börsungar nálægt því að jafna. Pedro átti skot í stöngina og frákastinu náði Busquets en hann skaut boltanum hátt yfir markið úr góðu færi.

87. Petr Cech varði meistararalega kollspyrnu frá Carles Puyol sem kom eftir aukaspyrnu frá Messi.

75. Chelsea er stundarfjórðungi frá því að leggja Evrópumeistaranna, sem hafa ekki náð að finna glufur á vörn Chelsea að neinu ráði í seinni hálfleik.

67. Drogba liggur í grasinu, örugglega í 20 sinn. Fílabeinsstrandarmaðurinn, sem skorað hefur eina mark leiksins, hefur sýnt á sér ljóta hlið í kvöld með því að henda sér í grasið nánast við hverja snertingu.

57. Alexis Sanchez fékk gott færi eftir undirbúning frá Fabregas en skot Sílemannsins af stuttu færi fór framhjá. Leikurinn í seinni hálfleik þróast eins og í fyrri hálfleik. Börsungar eru með boltann meira og minna og Chelsea-menn verjast.

51. Brasilímaðurinn Adriano átti gott skot frá vítateigslínu en Cech gerði vel og varði skotið.

46. Síðari hálfleikur er hafinn. Það má búast við miklu fjöri á Brúnni í seinni hálfleik.

45+2 MARK!! Chelsea er komið í 1:0 þvert gegn gangi leiksins. Lampard átti frábæra sendingu á Ramires sem sendi boltann fyrir markið og þar var Didier Drogba á markteignum og skoraði. Barcelona tekur miðju og í þann mund er flautað til hálfleiks. Frábært veganesti fyrir heimamenn. Þetta var 38. mark Drogba í Meistaradeildinni og 100. mark Chelsea á heimavelli í þessari frábæru keppni.

43. Chelsea-menn bjarga á línu. Efir skyndisókn Börsunga stakk Messi boltanum innfyrir vörn Chelsea á Fabregas. Hann náði að koma boltanum framhjá Petr Cech og boltinn var á leið í markið en Ashley Cole var vel á verði og náði að bjarga nánast á marklínunni.

28. Messi með skalla af löngu færi eftir fyrirgjöf frá Alves en Cech var vel á verði og handsamaði boltann.

25. Evrópumeistararnir hafa öll völd á vellinu. Ef þeir tapa boltanum vinna þeir hann jafnharðan og ef fram heldur sem horfir styttist í að Barcelona skori.

17. Stórsókn hjá Barcelona. Iniesta átti skot sem Cech varði. Cesc Fabregas náði frákastinu og einn fyrir opnu mark átti Spánverjinn misheppnað skot með vinstri fæti. Allt hófst þetta eftir frábæran einleik hjá Messi.

11. Hurð skall nærri hælum upp við mark Barcelona eftir langt innkast frá Branislav Ivanovic en Börsungar náðu að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

9. Barcelona var hársbreidd frá því að komast yfir. Andrés Iniesta stakk boltanum innfyrir vörn Chelsea á Alexis Sanchez. Sílemaðurinn vippaði boltanum yfir Petr Cech en boltinn lenti í slánni. Þarna sluppu heimamenn með skrekkinn.

5. Barcelona er búið að vera með boltann 83% en engin færi hafa litið dagsins ljós á Brúnni.

1. Þjóðverjinn Felix Brych hefur gefið merki um að leikurinn geti hafist. Vonandi fáum við hörkuleik.

0. Lionel Messi er markahæstur í Meistaradeildinni en argentínski töframaðurinn hefur skorað 14 mörk sem er met.

0. Brasilíski varnarmaðurinn David Luiz er meiddur og ekki í leikmannahópi Chelsea.

0. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2009 sem Chelsea er í undanúrslitum en Barcelona er að spila í þeim fimmta árið í röð.

0. Barcelona varð Evrópumeistari 2006, 2009 og 2011. Barcelona og Chelsea áttust við í undanúrslitunum 2009 og hafði Chelsea betur á útimarkareglunni.

0. Chelsea hefur unnið alla heimaleiki sína í Meistaradeildinni á tímabilinu.

Chelsea: Cech, Ivanovic, Terry, Cahill, Cole, Ramires, Lampard, Mikel, Meireles,Mata, Drogba.
Varamenn: Turnbull, Bosingwa, Essien, Malouda, Torres, Kalou, Sturridge.

Barcelona: Valdes, Alves, Puyol, Fabregas, Xavi, Iniesta, Maschaerano, Busquets, Adriano, Sanchez, Messi.
Varamenn: Pinto, Pique, Bartra, Thiago, Keita, Pedro, Cuenca.

Carles Puyol og Didier Drogba í baráttunni á Stamford Bridge …
Carles Puyol og Didier Drogba í baráttunni á Stamford Bridge í kvöld. Reuters
Gary Cahill liggur í grasinu og í baráttu við Carles …
Gary Cahill liggur í grasinu og í baráttu við Carles Puyol, Xavi Hernandez og Daniel Alves. Reuters
Lionel Messi.
Lionel Messi. Reuters
Alexis Sanchez vippar yfir Cech en því miður fyrir hann …
Alexis Sanchez vippar yfir Cech en því miður fyrir hann fór boltinn í slánna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert