Stoke áttunda eftir sigur á Liverpool

Stoke City er komið í 8. sætið eftir sigur á Liverpool, 3:1, í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Britannia-leikvanginum í Stoke.

Stoke er komið með 28 stig, tveimur minna en Arsenal sem er í sjöunda sæti með 30 stig. Liverpool seig hins vegar niður í tíunda sætið með 25 stig.

Liverpool fékk óskabyrjun, vítaspyrnu á fyrstu mínútunni, og Steven Gerrard skoraði úr henni. Stoke var hins vegar komið í 2:1 á 12. mínútu eftir mörk frá Jonathan Walters og Kenwyne Jones og Walters skoraði sitt annað mark í upphafi síðari hálfleiks.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. Leik lokið með sigri Stoke og honum varð aldrei ógnað að ráði í seinni hálfleiknum.

56. Þetta er í fyrsta skipti í 44 leikjum í úrvalsdeildinni sem Stoke nær að skora meira en tvö mörk í leik.

49. MARK, 3:1. Þetta er svo sannarlega eftir Stoke-formúlunni! Langt innkast frá Wilkinson, Kenwyne Jones skallar áfram á Jonathan Walters sem skorar sitt annað mark með fallegu skoti uppí vinstra hornið.

47. Litlu munar að Liverpool jafni í upphafi síðari hálfleiks. Raheem Sterling, nýkominn inná sem varamaður, kemst að endamörkum vinstra megin og sendir á Luis Suárez sem hittir boltann illa en hann fer í utanverða stöngina.

45. Hálfleikur í fjörugum leik á Britannia þar sem þrjú mörk komu á fyrstu 12 mínútunum.

12. MARK, 2:1. Stoke er komið yfir. Einfalt, hornspyrna frá vinstri og Kenwyne Jones skorar með föstum skalla niður í jörðina og hornið nær.

5. MARK, 1:1. En Stoke er ekki lengi að jafna! Shawcross neglir boltanum langt fram völlinn, Daniel Agger mistekst að skalla, Jonathan Walters fær boltann inní vítateiginn og sendir hann af öryggi framhjá Pepe Reina í marki Liverpool.

4. Howard Webb tekur lið Stoke engum vettlingatökum og er búinn að spjalda tvo leikmenn. Shawcross fyrir vítaspyrnuna og Cameron fyrir gróft brot.

2. MARK - 0:1. Eftir aðeins 38 sekúndur er Howard Webb búinn að dæma vítaspyrnu á Stoke. Mjög réttilega, Ryan Shawcross togar Luis Suárez niður eftir að Úrúgvæinn leikur hann grátt. Vítaspyrnan er svo afar fagmannlega framkvæmd af Steven Gerrard, óverjandi í vinstra hornið.

1. Leikurinn er hafinn.

Stoke: Begovic, Cameron, Shawcross, Huth, Wilkinson, Kightly, Nzonzi, Whelan, Etherington, Walters, Jones.
Varamenn: Sörensen, Adam, Whitehead, Upson, Crouch, Shotton, Jerome.

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Jose Enrique, Gerrard, Lucas, Downing, Shelvey, Suso, Suárez.
Varamenn: Jones, Cole, Henderson, Coates, Carragher, Allen, Sterling.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert