Aftur unnu Gylfi og félagar United

Gylfi og félagar fagna í leiknum í dag.
Gylfi og félagar fagna í leiknum í dag. EPA

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea gerðu sér lítið fyrir og lögðu Manchester United að velli 2:1 á Liberty-vellinum í Swansea en Jonjo Shelvey skoraði sigurmarkið 73. mínútu. Markið kom verulega gegn gangi leiksins þar sem United var talsvert sterkari aðilinn í leiknum. 

Ander Herrera kom United yfir á 28. mínútu eftir frábært spil gestanna en Swansea-menn jöfnuðu metin aðeins rúmri mínútu síðar.

Jonjo Shelvey átti þá frábæra sendingu inn í teig United á Sung-Yueng Ki sem afgreiddi boltann afar snyrtilega í netið, 1:1.

Manchester United var mun sterkara liðið í síðari hálfleiknum og þjarmaði vel að heimamönnum í Swansea. Það var því algjörlega gegn gangi leiksins þegar að Jonjo Shelvey þrumaði boltanum fyrir utan teig í netið en boltinn fór í Frakkann í framlínu Swansea,  Bafetimbi Gomis og þaðan í netið, 2:1 og urðu það lokatölur.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Swansea og var tekinn af velli á 74. mínútu.

Chelsea tapaði stigum

Chelsea missteig sig í toppbaráttunni þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Burnley á Stamford Bridge.

Það virtist allt stefna í þægilegan Chelsea sigur á Stamford Bridge en Branislav Ivanovic kom heimamönnum yfir á 18. mínútu.

Á 70. mínútu dró hins vegar til tíðinda þegar að varnartengiliður Chelsea, Nemanja Matic fékk að líta rauða spjaldið.

Við þetta efldust Burnley-menn og þeir jöfnuðu metin á 81. mínútu með marki Englendingsins Ben Mee  og mörkin urðu ekki fleiri.

Arsenal vann þægilegan sigur á Crystal Palace en mörk Skyttanna skoruðu þeir Santi Cazorla og Oliver Giroud í fyrri hálfleiknum. Glenn Murray minnkaði muninn fyrir Palace á 90. mínútu og þar við sat, lokatölur 2.1.

Mikil dramatík var í leik Aston Villa og Stoke en Tim Sherwood var að stýra liði Aston Villa í fyrsta skipti.

Hann fékk draumabyrjun þegar að Villa komst yfir með marki frá Scott Sinclair á 20. mínútu en Mame Biram Diouf jafnaði hins vegar metin fyrir Stoke á 45. mínútu. 

Á 90. mínútu braut hins vegar hollenski varnarmaðurinn Ron Vlaar klaufalega á Diouf inni í teig og vítaspyrna dæmd en Victor Moses skoraði af öryggi og tryggði Stoke stigin þrjú.

Úrslitin úr leikjunum kl. 15:

0:0 Sund­erland - W.B.A.
1:1 Chel­sea - Burnley
1:2 C.Palace - Arsenal
1:2 Ast­on Villa - Stoke
2:1 Sw­an­sea - Man.Utd.
2:1 Hull - Q.P.R. 

Robin van Persie með boltann í leiknum.
Robin van Persie með boltann í leiknum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert