Handtekinn fyrir ljóta söngva á Old Trafford

Stuðningsmenn Manchester United fagna ótrúlegum sigri í gær.
Stuðningsmenn Manchester United fagna ótrúlegum sigri í gær. AFP/Paul Ellis

Lögreglan í Manchester hefur handtekið einn stuðningsmann Manchester United fyrir að syngja níðsöngva um Hillsborough-slysið á meðan leik liðsins gegn Liverpool stóð í ensku bikarkeppninni í gærkvöldi.

Man. United vann erkifjendurna 4:3 eftir framlengda háspennu en heyra mátti fjölda stuðningsmanna heimamanna syngja ljóta söngva um slysið árið 1989, þar sem 97 stuðningsmenn Liverpool týndu lífi.

Stuðningsmenn Man. United sungu meðal annars „The Sun hafði rétt fyrir sér, þið eruð morðingjar“ og „Ávallt fórnarlömb, það er aldrei neitt ykkur að kenna“.

Leita fleiri stuðningsmanna United

Er um þekkta söngva stuðningsmanna annarra liða að ræða þar sem skuldinni er skellt á stuðningsmenn Liverpool. Árið 2016 komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að stuðningsmenn Liverpool hefðu ekki á neinn hátt borið sök á dauðsföllum stuðningsmanna liðsins í Hillsborough-slysinu.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Manchester segir að einn hafi verið handtekinn vegna níðsöngva á meðan leiknum stóð. Mun hún vinna náið með báðum félögum með það fyrir augum að finna fleiri stuðningsmenn Man. United sem gerðust uppvísir að slíkum söngvum á meðan leiknum stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert