Dómstóll FIA dæmir fjöðrunarbúnað Renaultbílanna ólöglegan

Fernando Alonso á ferð í Búdapest.
Fernando Alonso á ferð í Búdapest. reuter

Renault er óheimilt að nota nýstárlega dempara í keppnisbílum, samkvæmt úrskurði áfrýjunardómstóls Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í dag. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að fjöðrunarbúnaðurinn bryti í bága við tæknireglur formúlunnar.

FIA bannaði Renault og öðrum liðum að nota hina nýstárlegu fjöðrun í franska kappakstrinum í sumar. Renault taldi forsendur FIA fyrir banni á röngum rökum reistar og lét á það reyna með því að senda varabílinn með fjöðruninni í skoðun eftirlitsmanna næsta móts, þýska kappakstursins í Hockenheim.

Dómnefnd þýska kappakstursins samþykkti bílinn til keppni en forsvarsmenn FIA ákváðu þegar að skjóta þeirri niðurstöðu eigin fulltrúa til áfrýjunardómstóls sambandsins.

Vegna þeirrar ákvörðunar FIA að halda málinu til streitu í stað þess að smíða nýjar reglur er bönnuðu búnaðinn afdráttarlaust frá og með næsta ári ákvað Renault að nota fjöðrunina ekki þangað til niðurstaða í dómsmálinu fengist.

Því var fjöðrunin hvorki í bílum Renault í þýska kappakstrinum né þeim ungverska. Önnur lið, þar á meðal Ferrari, höfðu þróað samskonar búnað og notað þá í bílum sínum en tóku hann úr er FIA bannaði hann í sumar.

Dómstóllinn kom saman í gær og hlýddi þá á rök bæði Renault og tæknideildar FIA. Var málið að því búnu tekið til dóms og eftir að hafa velt því fyrir sér og borið saman bækur sínar og gögn komust dómararnir fjórir að niðurstöðu síðdegis í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert