Räikkönen varð að hlífa mótornum

Räikkönen á palli í Sepang með Alonso.
Räikkönen á palli í Sepang með Alonso. ap

Kimi Räikkönen harmaði vélarvandræði að loknum kappakstrinum í Sepang en hann sagðist hafa orðið að hlífa mótornum í bíl sínum vegna vanda sem upp kom í honum á síðustu hringjum ástralska kappakstursins í Melbourne.

Räikkönen vann með yfirburðum í Melbourne en var aldrei inni í myndinni varðandi keppni um sigur í Sepang. Varð hann að sætta sig við þriðja sætið á eftir McLarenþórunum Fernando Alonso og Lewis Hamilton.

Ferrariliðið valdi að skipta ekki um mótor hjá Räikkönen fyrir keppnina í Sepang til að komast hjá 10 sæta afturfærslu á rásmarki eftir tímatökur. Fyrir vikið starfaði mótorinn ekki á fullum afköstum í dag.

„Við urðum að fara milliveg, við vildum ráspól svo sú keppni var ekki góð byrjun á því sem eftir fór. Vertíðin er enn á byrjunarstigi og við stöndum vel að vígi þrátt fyrir allt. Keppnin verður hörð í næstu mótum, en það er jú formúla-1.

Við vissum að mótorinn væri ekki 100% í lagi og urðum því að hlífa honum. Eitt og annað var ekki fullkomið svo við gátum ekki freistað neinna heimskubragða. Vonandi verður bíllinn í fullkomnu lagi í næsta móti,“ sagði Räikkönen eftir kappaksturinn.

Þrátt fyrir að tapa forystunni í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra til Alonso sagðist Räikkönen ánægður með sinn afla í dag. „Ég er ánægður með stigin en svekktur yfir hvar við höfnuðum í keppninni. Helgin hefur verið frekar erfið og við urðum að fara milliveg í mörgum málum og töpuðum við það of miklum hraða. Þetta var ein af þeim helgum þar sem við þurftum að reyna afla sem flestra stiga og gera það sem til þurfti til þess,“ bætti Räikkönen við.

„Bíllinn var ekki erfiður viðfangs, hann var einfaldlega ekki nógu hraðskreiður. Við vitum ástæður þess en vorum því miður í þeirri aðstöðu að geta ekkert við því gert. Vonandi snýst taflið við í næsta móti svo við getum keppt aftur um sigur,“ sagði hann ennfremur.

Liðsfélagi Räikkönen, Felipe Massa, varð í fimmta sæti eftir að hafa byrjað kappaksturinn á ráspól.

Räikkönen á palli í Sepang, annað mótið í röð.
Räikkönen á palli í Sepang, annað mótið í röð. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert