Alonso tók ráspól af Hamilton á síðustu sekúndum

Ökuþórar McLaren ánægðir eftir tímatökurnar í Mónakó, Fernando Alonso (t.h.) …
Ökuþórar McLaren ánægðir eftir tímatökurnar í Mónakó, Fernando Alonso (t.h.) og Lewis Hamilton. reuters

Fernando Alonso hjá McLaren var í þessu að vinna ráspól Mónakókappakstursins, hinn fyrsta sem kemur í hlut McLaren á árinu. Í síðustu tilraun á síðustu sekúndum komst hann fram úr liðsfélaga sínum Lewis Hamilton sem ekið hafði hraðar allan tímann og missti því af sínum fyrsta pól á ferlinum. Felipe Massa á Ferrari varð þriðji, komst fram úr Giancarlo Fisichella á Renault á síðustu stundu.

McLarenþórarnir kepptu um fyrsta sætið í tímatökunum út í gegn og blandaði enginn sér í þá baráttu. Hamilton ók hraðar á fyrsta kafla brautarinnar en dæmið snerist við á öðru tímasvæðinu, þar ók Alonso mun hraðar.

Massa hélt uppi heiðri Ferrari með því að hreppa þriðja sætið af Fisichella á sínum lokahring en hann hóf hann er nokkrar sekúndur lifðu eftir af tímatökunni. Liðsfélagi Massa, Kimi Räikkonen, gerði sig sekan um mistök sem ekki eiga að sjást hjá topp ökumanni; ók utan í vegg á leið inn í hlykkbeygju á sundlaugarsvæðinu og skemmdi stýris- og fjöðrunarbúnað.

Atvikið átti sér stað í byrjun annarrar lotu og vélvirkjar Ferrari höfðu ekki tíma til að gera við skemmdina svo hann gæti haldið áfram. Náði hann ekki Rascasse-beygjunni og stoppaði þar; á svipuðum stað og Michael Schumacher vann sér til óhelgi í tímatökunum í fyrra er hann hindraði för keppinautanna af ásettu ráði.

Minnstu munaði að Massa lokaðist milli Räikkönen og veggjarins en þeim síðarnefnda tókst á endanum að koma Ferrarinum í bakkgír og leysa úr flækjunni.

Fisichella vann besta árangur Renault í tímatökum á árinu og Nico Rosberg og Mark Webber gerðu hið sama fyrir Williams og Red Bull með fimmta og sjötta sæti.

David Coulthard á Red Bull komst í hóp 10 fremstu en árangur hans í annarri lotu var síðan strikaður út í refsingarskyni fyrir að hindra Heikki Kovalainen á Renault. Coulthard var á úthring en Kovalainen á hröðum og hélt Skotinn hinum finnska nýliða fyrir aftan sig hálfan hring án þess að víkja. Með refsingunni féll hann niður í 16. sæti.

Fyrir bragðið komust báðar Hondurnar í lokalotuna í fyrsta sinn á árinu. Rubens Barrichello vann 10. sætið með því að aka hringinn á þremur þúsundustu úr sekúndu betri tíma en Jenson Button sem síðan fékk að halda áfram vegna refsingar Coulthard.

Vitantonio Liuzzi á Toro Rosso sló í gegn í fyrstu lotu með því að setja fjórða besta tíma og varð á endanum í 12. sæti sem er hans besta í ár. Varð hann m.a. á undan landa sínum Jarno Trulli á Toyotu. Toyotaliðið átti hörmulegan dag með Trulli í aðeins 14. sæti og Ralf Schumacher komst ekki áfram úr fyrstu lotu og hefur keppni í 20. sæti.

Úrslit tímatökunnar urðu annars sem hér segir:

Tímatakan í Mónakó Lota 1 Lota 2 Lota 3
Röð Ökuþór Bíll Röð Tími Hri. Röð Tími Hri. Röð Tími Hri.
1. Alonso McLaren 2. 1:16.059 8 1. 1:15.431 3 1. 1:15.726 11
2. Hamilton McLaren 1. 1:15.685 6 2. 1:15.479 4 2. 1:15.905 12
3. Massa Ferrari 5. 1:16.786 8 5. 1:16.034 7 3. 1:15.967 12
4. Fisichella Renault 12. 1:17.596 7 6. 1:16.054 6 4. 1:16.285 11
5. Rosberg Williams 6. 1:16.870 9 7. 1:16.100 3 5. 1:16.439 12
6. Webber Red Bull 14. 1:17.816 7 9. 1:16.420 6 6. 1:16.784 12
7. Heidfeld BMW Sauber 10. 1:17.385 5 4. 1:15.733 7 7. 1:16.832 12
8. Kubica BMW Sauber 11. 1:17.584 5 3. 1:15.576 7 8. 1:16.955 12
9. Barrichello Honda 8. 1:17.244 10 10. 1:16.454 6 9. 1:17.498 11
10. Button Honda 9. 1:17.297 10 11. 1:16.457 6 10. 1:17.939 12
11. Wurz Williams 16. 1:17.874 9 12. 1:16.662 7      
12. Liuzzi Toro Rosso 4. 1:16.720 11 13. 1:16.703 6      
13. Trulli Toyota 13. 1:17.686 8 14. 1:16.988 6      
14. Kovalainen Renault 15. 1:17.836 8 15. 1:17.125 8      
15. Räikkönen Ferrari 3. 1:16.251 9 16. No time 2      
16. Coulthard* Red Bull 7. 1:17.204 9 <1:16.319 7      
17. Davidson Super Aguri 17. 1:18.250 7            
18. Speed Toro Rosso 18. 1:18.390 7            
19. Sutil Spyker 19. 1:18.418 8            
20. R.Schumacher Toyota 20. 1:18.539 8            
21. Sato Super Aguri 21. 1:18.554 10            
22. Albers Spyker 22. No time 3            

* Tími Coulthard í annarri lotu strikaður út þar sem hann hindraði för Kovalainen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert