Boxari hjálpar Viktori Þór til síns fyrsta sigurs í formúlu-3

Viktor Þór á leið til sigurs í formúlu-3 mótinu í …
Viktor Þór á leið til sigurs í formúlu-3 mótinu í Snetterton. mbl.is/jamesbearne

Viktor Þór, hinn 19 ára ensk-íslenski keppandi í bresku mótaröðinni í formúlu-3, vann jómfrúarsigur sinn í formúlunni í kappakstri í Snetterton-brautinni í Norfolk í gær, sunnudag. Naut hann til þess ávinnings aðstoðar heimsmeistarans í millivigt í hnefaleikum.

Viktor Þór hóf kappaksturinn í sjöunda sæti á rásmarki í sínum flokki. Tók hann fram úr hverjum ökuþórnum af öðrum og stakk næstu menn bókstaflega af. Um miðbik keppninnar, eftir 15 hringi af 30, kom hins vegar öryggisbíllinn út í brautina vegna óhapps.

Við það jafnaðist keppnin aftur en í endurræsingunni sýndi Viktor Þór öryggi og lét aldrei forystuna af hendi. Næstir í mark urðu Frankie Cheng frá Kína, sem er efstur og jafn öðrum að stigum í keppni ökuþóra, þriðji varð Hamad Al Fardan frá Barein.

„Ég er í sjöunda himni með fyrsta sigurinn. Kappaksturinn var erfiður vegna fjölda atvika og svo kom öryggisbíllinn út í brautina. En mér tókst að halda höfði út í gegn og landa sigri. Það er einkar ánægjulegt því ég er eini ökumaðurinn í breska flokknum sem unnið hefur stig í öllum mótunum átta,“ sagði Viktor Þór um sigur sinn.

Viktor Þór keppir í nafni Íslands fyrir Alan Docking Racing og ekur Honda/Dallara bíl. Hann er nú þriðji í stigakeppni ökuþóra með 78 stig en efstir eru Cheng og Mexíkaninni Sergio Perez með 102 stig hvor. Er hann aðeins einn fjögurra ökuþóra af 33 í alþjóðaflokknum og þeim breska sem unnið hefur stig í öllum mótunum átta sem lokið er.

Í mótinu um helgina naut hann þess að hafa verið í hugarþjálfun hjá stuðningsmanni sínum og heimsmeistara í millivikt í hnefaleikum, Joe Calzaghe.

Viktor Þór hefur staðið sig vel á jómfrúarári sínu í formúlu-3. Auk sigurs nú hefur hann tvisvar orðið í öðru sæti og einu sinni þriðji í mótunum átta.

Næstu tvö mót Viktors Þórs fara fram í hinni frægu kappakstursbraut Monza á Ítalíu helgina 23. og 24. júní nk.

Viktor Þór ánægður á verðlaunapallinum eftir fyrsta sigurinn í formúlu-3 …
Viktor Þór ánægður á verðlaunapallinum eftir fyrsta sigurinn í formúlu-3 í gær. mbl.is/jamesbearne
Viktor Þór á leið til sigurs í Snetterton.
Viktor Þór á leið til sigurs í Snetterton. mbl.is/jamesbearne
Viktor Þór tók fram úr öllum og sigraði örugglega í …
Viktor Þór tók fram úr öllum og sigraði örugglega í Snetterton. mbl.is/jamesbearne
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert