Hamilton-Alonso ástandið „verra“ en rimmur Senna og Prost

Það reynir meira á Dennis að hafa hemil á Alonso …
Það reynir meira á Dennis að hafa hemil á Alonso (t.v.) og Hamilton (t.h.) en Alain Prost og Ayrton senna fyrir tveimur áratugum. ap

Ron Dennis, liðsstjóri McLaren, segir ástandið innan liðsins vera nú „verra“ en þegar hann þurfti á sínum tíma að takast á við og hemja óbeit Alain Prost og Ayrton Senna í garð hvors annars.

„Það var fyrir daga internetsins,“ sagði Dennis við spænska blaðamenn í Búdapest um innbyrðis átök Prost og Senna er þeir voru liðsfélagar hjá McLaren 1988 og 1989. Þá spurðust deilur innan liðsins ekki eins hratt út og nú á tímum nýrrar og skjótvirkari fjölmiðlunar.

Upp úr sauð innan McLaren um helgina og játaði Dennis að mikil togstreita ætti sér stað milli núverandi ökuþóra liðsins, Fernando Alonso og Lewis Hamilton.

„Það eina sem ég þarf á að halda núna er að fá frið, koma mér heim og fá mér glas af góðu víni. Ég er sextugur,“ sagði Dennis og brosti við en hann þótti áberandi þreytulegur í mótslok eftir átök helgarinnar og kvaðst ætla að taka sér frí í nokkrar vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert