McLaren við Alonso: „Þú mátt fara“

Alonso (t.h.) óskar Hamilton til hamingju með sigurinn í Búdapest …
Alonso (t.h.) óskar Hamilton til hamingju með sigurinn í Búdapest í fyrradag. reuters

Fernando Alonso, sem á í illdeilum við liðsfélaga sinn hjá McLaren, Lewis Hamilton, hefur verið tjáð að honum sé frjálst að fara frá liðinu í vertíðarlok, kjósi hann svo.

Þessu heldur breska blaðið The Times fram í dag og segir að liðsstjórinn Ron Dennis hafi sjálfur boðið Alonso þennan kost, en hann er annars á fyrsta ári þriggja ára samnings hjá liðinu.

Fregnir herma að framtíð heimsmeistara undanfarinna tveggja ára sé í óvissu eftir að samband þeirra Hamiltons versnaði til muna í Búdapest um helgina. Þar var Alonso refsað fyrir að reyna að koma í veg fyrir að Hamilton gæti unnið ráspólinn.

„Mér skilst honum hafi verið tjáð að hann geti farið því liðið er orðið svo leitt á honum. Ron er búinn að fá nóg af þeim báðum [Alonso og Hamilton],“ hefur Times eftir ónafngreindum heimildarmanni, sem blaðið segir háttsettan innan McLarenliðsins.

Kemur þetta í kjölfar ummæla Alonso þess efnis að framtíð hans væri óráðin. „Ég veit það ekki,“ svaraði hann spænska blaðinu Marca er hann var spurður hvort hann ráðgerði að vera um kyrrt hjá McLaren.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert