„Mjög sáttur eftir fyrstu keppnishelgi mína í alvöru kappakstri“

Jón Ingi Þorvaldsson á fleygiferð í keppni í Brands Hatch …
Jón Ingi Þorvaldsson á fleygiferð í keppni í Brands Hatch í gær. mbl.is/James Bearne

„Þetta var mun harðari keppni en ég hafði búist við. Aðeins þrír aðrir ökumenn voru að keppa á brautinni í fyrsta sinn og efstu 10-12 keppendurnir voru í algerum sérflokki,“ segir Jón Ingi Þorvaldsson um þátttöku sína í Palmer-Audi formúlunni (FPA) í Bretlandi um helgina.

Jón Ingi hefur keppt í Íslandsmótinu í körtuakstri (Rotax) undanfarin ár með góðum árangri og hefur auk þess keppt af og til á áhugamannamótum í Bretlandi. Hann ákvað að slá til og taka þátt í haustmótaröð Palmer-Audi formúlunnar en fyrri mótin þrjú fóru fram um helgina.

Þar er keppt á bílum sem svipar til keppnisbíla í formúlu-1 nema þeir eru talsvert aflminni. Keppt var í hinni sögufrægu Brands Hatch braut þar sem m.a. hefur verið keppt í formúlu-1. Jón Ingi er annar íslenski ökuþórinn sem reynir fyrir sér í Palmer-Audi formúlunni, áður hefur Viktor Þór Jensen náð góðum árangri í þeirri grein.

„Ég var stöðugt að bæta brautartíma minn, eftir að hafa verið 5 sekúndum á eftir efstu mönnum á fyrstu æfingu var ég kominn niður í 1,6 sekúndur á eftir þeim í tímatökum og kappakstrinum sjálfum.

Það er gríðarlega stórt stökk úr körtukappakstrinum upp í þennan flokk og ég er mjög sáttur við þennan árangur eftir fyrstu keppnishelgi mína í alvöru kappakstri.

Um næstu helgi bætast nokkrir mjög sterkir ökumenn í hópinn og verður keppnin þar því enn harðari. Ég hlakka mikið til að takast á við þá, því sterkari sem hópurinn er þeim mun lærdómsríkari er keppnin,“ segir Jón Ingi.

Seinni þrjár umferðir í haustmótaröð FPA fara fram á brautinni Snetterton í Norfolk u m næstu helgi. Rétt eins og fyrri keppnishelgina fara æfingar fram á föstudeginum og tímatökur á laugardag.

Syrpa með myndum frá keppni Jóns Inga í Palmer Audi-formúlunni

Jón Ingi fer hér fremstur er hann bremsar inn í …
Jón Ingi fer hér fremstur er hann bremsar inn í fyrstu beygju í lokamótinu í gær, en þá var blautt í Brands Hatch. mbl.is/James Bearne
Jón Ingi leggur á ráðin ásamt aðstoðarmanni fyrir lokaumferðina í …
Jón Ingi leggur á ráðin ásamt aðstoðarmanni fyrir lokaumferðina í gær. mbl.is/Karl Thoroddsen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert