Áfrýjun McLaren nær ekki fram að ganga

Alonso samfagnar nýjum meistara, Räikkönen, á pallinum í Sao Paulo.
Alonso samfagnar nýjum meistara, Räikkönen, á pallinum í Sao Paulo. ap

Áfrýjun McLarenliðsins gegn ákvörðun dómara Brasilíukappakstursins að refsa ekki Williams og BMW fyrir að nota of kalt bensín á bílum sínum var ekki tekin til greina af áfrýjunarrétti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA).

Eftir vitnaleiðslur og eftir að hafa legið yfir málinu í dag og gær var það niðurstaða áfrýjunardómstólsins að áfrýjun McLaren væri ekki dómtæk.

Tóku þeir því ekki á deiluefninu og fann McLarenliðið að því þegar niðurstaðan lá fyrir, að eftir sem áður myndu reglurnar um bensínhita vera óljósar. Sagði einn helsti leiðtogi þess, Martin Whitmarsh, það eitt hafa vakið fyrir McLaren að fá reglur á óljósar reglur og framkvæmdaatriði á hreint.

Dómarar kappakstursins tóku áfrýjun McLaren á mótsstað til greina og birtu niðurstöðu keppninnar í Sao Paulo með fyrirvara um niðurstöðu áfrýjunardómstólsins.

Með niðurstöðunni er keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra formlega lokið með sigri Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Lewis Hamilton sagði í kvöld að Räikkönen verðskuldaði titilinn og hvorki hann sjálfur né nokkur annar hjá McLaren hefðu haft áhuga á að ná titlinum af honum fyrir dómstólnum. Sá hafi ekki verið tilgangurinn með málinu.

Áfrýjun McLaren náði ekki fram að ganga.
Áfrýjun McLaren náði ekki fram að ganga. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert