Hörð átök Massa og Kovalainen

Massa fagnar þriðja pólnum í Istanbúl í röð.
Massa fagnar þriðja pólnum í Istanbúl í röð. ap

Gríðarleg keppni átti sér stað um ráspól tyrkneska kappakstursins og skipti hann nokkrum sinnum um hendur í lokalotunni. Eftir spennandi og harðan slag hafði Felipe Massa hjá Ferrari betur gegn ökumönnum McLaren. Heikki Kovalainen varð annar og Lewis Hamilton þriðji.

Með þessu styrkti Massa stöðu sína vel í tilraunum til að vinna tyrkneska kappaksturinn þriðja árið í röð. Fyrri árin tvö hóf hann einnig keppni fremstur og ók í bæði skipti til öruggs sigurs.

Félagi hans Kimi Räikkönen átti erfitt uppdráttar í lokalotunni, gerði þá m.a. akstursmistök í beygjum og varð að sætta sig við fjórða sætið.

Kovalainen og Hamilton beittu hvor sinni áætluninni í lokalotunni, Hamilton notaði harðari dekkin í báðum tímatilraunum sínum en Kovalainen þau mýkri í seinni tilrauninni. Þau reyndust betri því hann bætti tíma sinn talsvert; komst fram úr Hamilton og sat hann í nokkrar sekúndur á  ráspól, eða þar til Massa lét til skarar skríða á síðustu stundu.

Robert Kubica á BMW varð fimmti og fjórum sætum á undan liðsfélaga sínum Nick Heidfeld sem varð níundi.

Red Bull kom báðum bílum í lokalotuna í fyrsta sinn á árinu. Mark Webber og David Coulthard tóku hins vegar aðeins eina tímatilraun í lokalotunni, líklega til að spara bensín til kappakstursins.

Jarno Trulli breytti ekki út af þeirri venju að komast í lokalotuna, það hefur hann gert í öllum mótum ársins. Liðsfélagi hans  Timo Glock varð hins vegar fimmtándi.

Fernando Alonso var með fjórða besta tímann eftir fyrri tímatilraunina í lokalotunni en hélt þeirri stöðu ekki, varð sjöundi.

Rubens Barrichello gat ekki haldið upp á metkappakstur sinn með því að komast í lokalotuna. Hann hefur þó 257. sitt einu sæti framar en liðsfélagi hans Jenson Button, þar sem Hondurnar urðu í 12. og 13. sæti.

Niðurstaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3 Hri.
1. Massa Ferrari 1:25.994 1:26.192 1:27.617 16
2. Kovalainen McLaren 1:26.736 1:26.290 1:27.808 16
3. Hamilton McLaren 1:26.192 1:26.477 1:27.923 15
4. Räikkönen Ferrari 1:26.457 1:26.050 1:27.936 17
5. Kubica BMW 1:26.761 1:26.129 1:28.390 17
6. Webber Red Bull 1:26.773 1:26.466 1:28.417 17
7. Alonso Renault 1:26.836 1:26.522 1:28.422 18
8. Trulli Toyota 1:26.695 1:26.822 1:28.836 20
9. Heidfeld BMW 1:27.107 1:26.607 1:28.882 20
10. Coulthard Red Bull 1:26.939 1:26.520 1:29.959 16
11. Rosberg Williams 1:27.367 1:27.012 13
12. Barrichello Honda 1:27.355 1:27.219 13
13. Button Honda 1:27.428 1:27.298 14
14. Vettel Toro Rosso 1:27.442 1:27.412 15
15. Glock Toyota 1:26.614 1:27.806 15
16. Nakajima Williams 1:27.547 9
17. Piquet Renault 1:27.568 7
18. Bourdais Toro Rosso 1:27.621 8
19. Fisichella Force India 1:27.807 10
20. Sutil Force India 1:28.325 9
Barrichello hefur metkappaksturinn á undan Button.
Barrichello hefur metkappaksturinn á undan Button. mbl.is/hondaf1
Alonso blandaði sér í keppnina.
Alonso blandaði sér í keppnina. ap
Fyrstu þrír í tímatökunum í Istanbúl, (f.v.) Kovalainen, Massa og …
Fyrstu þrír í tímatökunum í Istanbúl, (f.v.) Kovalainen, Massa og Hamilton. ap
Räikkönen varð á eftir báðum ökuþórum McLaren í tímatökunum.
Räikkönen varð á eftir báðum ökuþórum McLaren í tímatökunum. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert