Hülkenberg og Perez til Force India?

Sergio Perez á ferð á Mclarenbílnum í Interlagos-brautinni í Sao …
Sergio Perez á ferð á Mclarenbílnum í Interlagos-brautinni í Sao Paulo. AFP

Sergio Perez og Nico Hülkenberg munu keppa fyrir Force India á næsta ári ef marka má fregnir formúluvefja. Fyrir helgi gaf Adrian Sutil til kynna að hann væri búinn að semja um áframhaldandi dvöl í herbúðum liðsins svo eitthvað í þessu dæmi er ekki alls kostar rétt.

McLarenstjórinn Martin Whitmarsh virðist viss í sinni sök því hann hefur þegar lýst yfir ánægju sinni með að Perez skuli halda velli í formúlunni eftir að hafa misst vinnuna hjá McLaren, sem hann ók fyrir í síðasta sinn í Sao Paulo í gær og það með einkar glæsilegum hætti; vann sig úr 19. sæti í það sjötta. 

Að sögn þýska vikuritsins Auto Motor und Sport hefur Hülkenberg skrifað undir samning við Force India fyrir næsta ár. Í fréttinni segir að liðið sé að skoða möguleika á að ráða Perez og að útlit sé fyrir að Sutil fari til Sauber.

Í frétt tímaritsins segir að í samningi Hülkenbergs séu valréttarákvæði sem gætu leitt til þess að hann keppi næstu þrjú árin fyrir Force India. Þar kannast hann við sig því Hülkenberg keppti fyrir liðið í fyrra. Á jómfrúrári sínu, 2011, keppti hann fyrir Williams og er því í ár hjá þriðja liðinu á jafn mörgum árum.

Hülkenberg (t.h.) í Sao Paulo með Fernando Alonso rétt á …
Hülkenberg (t.h.) í Sao Paulo með Fernando Alonso rétt á eftir. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert