Hamilton fremstur á lokaæfingunni

Lewis Hamilton ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökurnar í Mónakó í morgun en það bar til tíðinda, að Daniel Ricciardo hjá Red Bull komst upp á milli ökumanna Mercedes. Varð Nico Rosberg þriðji.

Aðeins munaði fimm hundruðustu úr sekúndu á Hamilton og Ricciardo og svipað bil var svo í Rosberg.

Sebastian Vettel bakkaði Ricciardo upp með fjórða sæti á lista yfir hröðustu hringi en á þeim munaði samt tæplega 0,4 sekúndum.

Í fimmta og sjötta sæti urðu Ferrarifélagarnir Fernando Alonso og Kimi Räikkönen, en á þeim munaði 20 þúsundustu úr sekúndu. Voru þeir 0,2 sekúndum lengur með hringinn en Vettel en álíka fljótari í förum en Sergio Perez og og Nico Hülkenberg hjá Force India,sem urðu í sjöunda og átunda sæti.

Fyrsta tuginn fylltu svo Toro Rosso mennirnir Jean-Eric Vergne og Daniil Kvyat hjá Toro Rosso sem var 1,5 sekúndum frá tíma Hamiltons.

McLarenmennirnir Kevin Magnussen og Jenson Button urðu í 11. og 12. sæti og í 13.og 14. sæti urðu Williamsmennirnir Valtteri Bottas og Felipe Massa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert