Rosberg á ráspól í Hockenheim

Nico Rosberg á leið til sigurs í tímatökunni í Hockenheimring.
Nico Rosberg á leið til sigurs í tímatökunni í Hockenheimring. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól þýska kappakstursins í Hockenheim. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton féll úr leik í fyrstu lotu og hefja ökumenn Williams keppni í öðru og þriðja sæti.

Hamilton missti vald á bílnum á bremsusvæði undir lok hringsins og flaug út úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg af miklu afli. Varð þar með endir bundinn á þátttöku hans í tímatökunni en hann mun ekki hafa sakað við skellinn harða. Mun óhappið bilun í bremsubúnaði hægra framhjóls að kenna. 

Og með augsjáanlegum framförum Williamsbílanna verður sæti á verðlaunapalli á morgun afar torsótt fyrir hann þótt hann hafi sýnt í síðustu mótum að það sé ekki erfiðisvinna fyrir Mercedesbílinn að klifra upp eftir bílaröðinni, en Hamilton hefur keppni í 15. sæti.

Valtteri Bottas hefur keppni í öðru sæti sem er jafnt hans besta árangri í tímatöku til þessa. Liðsfélagi hans Felipe Massa hafnaði í þriðja sæti.

Danski nýliðinn Kevin Magnussen hjá McLaren varð fjórði og skaut ökumönnum Red Bull,  Daniel Ricciardo og Vettel aftur fyrir sig undir lokin, en þeir urðu í fimmta og sjötta sæti.

Sjöundi varð Fernando Alonso á Ferrari, áttundi Daniil Kvyat á Toro Rosso og í níunda og tíunda sæti urðu liðsfélagarnir hjá Force India, Nico Hülkenberg og Sergio Perez.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari komst ekki áfram úr annarri lotu og hefur keppni af 12. rásstað, einu sæti aftar en Jenson Button hjá McLaren sem sat einnig eftir í annarri lotu, í ellefta sæti.

Rosberg var næsta öruggur með toppsætið allan tímann þótt Bottas hafi hoggið nærri í lokatilraun sinni; þá munaði aðeins 0,2 sekúndum á þeim. Ráspóllinn er sá fimmti sem hann vinnur á árinu.

Nico Rosberg hefur keppni fremstur í Hockenheimring á morgun en …
Nico Rosberg hefur keppni fremstur í Hockenheimring á morgun en milli þeirra Lewis Hamilton á rásmarkinu verða 13 ökumenn. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert