Staðfestir þátttöku Manor

Manor kemur í stað Marussia.
Manor kemur í stað Marussia. mbl.is/afp

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur birt uppfærðan lista yfir liðin sem keppa í formúlu-1 í ár. Aðal breytingin er sú, að þar er þátttaka Manorliðsins staðfest.

Manor kemur í stað Marussia en á lista FIA er liðið nú nefnt „Manor Marussia F1 Team“. Er Ferrari sagt leggja liðinu til keppnisvélar í bílana, eins og áður hefur komið fram. Manor var móðurfélag Marussialiðsins.

Starfslið Manor hefur keppst að undanförnu við að smíða bíl fyrir keppnistíðina en af þeim sökum tók það ekki þátt í bílprófunum vetrarins. Lengi leit út fyrir að liðið væri dautt eftir að hafa ekki mætt til leiks í þremur síðustu mótum ársins 2014.

Í athugasemdum FIA við listann segir, að þátttaka Manor sé því háð að bílar þess uppfylli tæknireglur ársins 2015. Þá þarf ökumaðurinn Will Stevens að verða sér úti um svonefnt ofurskírteini áður en hann mætir til leiks í Melbourne.

Þátttökulistinn staðfestir og endanlega dauða Caterhamliðsins en eigur þess verða seldar á uppboði á næstunni. Frá slíkum endalokum tókst hins vegar að bjarga Marussia frá á síðustu metrunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert