Räikkönen fljótastur á fyrstu æfingu

Kimi Räikkönen á ferð á Ferrarifák sínum.
Kimi Räikkönen á ferð á Ferrarifák sínum. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen ók hraðast allra á fyrstu æfingu kappaksturshelgarinnar í Barein og næstbesta hring átti liðsfélagi hans Sebastian Vettel. Þriðji varð svo Valtteri Bottas hjá Williams.

Æfingin fór fram í gríðarlegum hita og mældist brautarmalbikið rúmlega 50°C þegar heitast var. Besti hringur Räikkönen mældist 1:37,827 mín. og var 0,2 sekúndum fljótari í förum en Vettel. Bottas var svo 0,3 sekúndu á eftir á 1:38,390 mín.

Toro Rosso átti góðan dag er Carlos Sainz og Max Verstappen enduðu í fjórða og sjötta sæti, en milli þeirra varð Daniel Ricciardo á Red Bull.

Fernando Alonso náði athyglisverðum hring og skipaði sér í sjöunda sæti, eða í fyrsta sinn sem McLarenbíll er í hópi 10 fremstu á æfingu á árinu. Tuginn fylltu svo Felipe Nasr á Sauber, Daniil Kvyat á Red Bull og Felipe Massa á Williams.

Athygli vekur að Nico Rosberg hjá Mercedes varð aðeins 15. og liðsfélagi hans Lewis Hamilton 16. þrátt fyrir að þeir ækju jafn mikið og þeir sem flesta hringi lögðu að baki. Tími Rosberg var 1:39, 293 mín., og Hamiltons 1:39,532.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert