Rosberg með þrennu í Mónakó

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna óvæntan sigur í Mónakókappakstrinum. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton var fyrstur þar til öryggisbíll var kallaður út í brautina vegna slyss er um 10 hringir af 78 voru eftir. Veðjaði hann á að fá ný dekk undir en það gekk ekki upp; fyrir bragðið missti hann Rosberg og Sebastian Vettel hjá Ferrari fram úr sér.

Með þessu sigrar Rosberg þriðja árið í röð í Mónakó en síðastur til að afreka annað eins á götum dvergríkisins við Miðjarðarhaf var Ayrton Senna. Var þetta og tíundi mótssigur Rosberg á ferlinum.

Vettel fagnaði öðru sætinu eins og sigri en Hamilton auðsýndi gremju sína í garð keppenisstjóra síns og stjórnenda Mercedesliðsins með margvíslegum hætti. Meðal annars stöðvaði hann bílinn á hafnarsvæðinu á innhring eins og hann ætlaði ekki að láta sjá sig við verðlaunaafhendinguna. Þá spurði hann ítrekað í talstöðina hvers vegna sigurinn hafi verið hafður af honum með dekkjaskiptunum.

Mónakókappaksturinn í fyrra markaði upphaf fjandskapar innan Mercedesliðsins og virðist allt benda til að sagan hafi endurtekið sig í dag. Ætla má að harkalega verði rifist innan liðsins þegar farið verður yfir kappaksturinn á liðsfundi seinna í dag. 

Þar til Max Verstappen hjá Toro Rosso missti einbeitinguna og ók aftan á Romain Grosjean hjá Lotus rétt fyrir fyrstu beygju var kappaksturinn fremur tíðindalítill, eins og venjan er yfirleitt í Mónakó. Þannig var röð fremstu sjö manna hin sama eftir fyrsta hring og þann síðasta að sætaskiptum Hamiltons undanskildum.

Allt breyttist hins vegar er öryggisbíll var kallaður út í brautina og þeirrar ákvörðunar Mercedesstjóranna að láta Hamilton koma inn til dekkjaskipta.

Rosberg og Vettel skiptu hins vegar ekki um dekk og dugðu þau það vel á síðustu 5-6 hringjunum til að halda stöðu sinni, í fyrstu tveimur sætum. Hamilton átti aldrei möguleika á að leggja til atlögu við Vettel. 

Kimi Räikkönen var sannspár, hann varð í sama sæti í markinu og hann byrjaði í. Hafði unnið sig upp en tapaði keppni við ökumenn Red Bull og féll aftur fyrir þá er Daniel Ricciardo stangaði hann refsilaust hálfvegis úr brautinni. Á sama stað og svipað hafði Fernando Alonso á McLaren nuddað sér á fyrsta hring utan í Nico Hülkenberg hjá Force India og var refsað með fimm sekúndna aukastoppi.

Eins og áður segir ók Verstappen aftan á Grosjean með þeim afleiðingum að hann flaug á öryggisvegg og grófst í hann. Skellurinn var mjög harður en engu að síður kvaðs hann heill heilsu og stóð hjálparlaust upp úr bílbrakinu. Var Verstappen að freista þess að komast fram úr og hreppa tíunda og síðasta stigasætið af Grosjean. Ákafi unga ökumannsins var full mikill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert