Hrósar „risahring“ Rosberg

Mercedesstjórinn Toto Wolff segir að tímatökurnar hafa verið súrsætar fyrir lið hans vegna bilun í rafeindastýringum vélar í bíl Lewis Hamilton. Hins vegar hrósaði hann „risahring“ Nico Rosberg sem tók ráspólinn traustataki.

Eftir fyrstu atlögu að tímahring var Rosberg í öðru sæti, á eftir Kimi Räikkönen hjá Ferrari. En bætti sinn næsta hring svo um munaði og vann ráspólinn með rúmlega hálfrar sekúndu mun.

Toto Wolff harmaði að nú væri lokið skeiði sem fólst í því að sjö mót í röð hreppti Mercedes fyrstu tvö sætin á rásmarki. Annar í dag varð Daniel Ricciardo hjá Red Bull sem laumaði sér fram úr Räikkönen í lokin.

„Nico kom með risahring, hann lagði allt í lokatilraunina og stóð sig stórkostlega með því að hreppa pólinn,“ sagði Wolff eftir tímatökuna. Hann kveðst svo vona að Ricciardo nái sér á strik í ræsingunni á morgun og geti virkað sem hemill á framgang ökumanna Ferrari, sem hefja keppni af annarri ráslínu, eða í þriðja og fjórða sæti. „Vonandi virkar bíll hans nógu breiður til að stöðva þá því við fengum ekki að sjá allt frá Ferrari í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert