Rosberg á ráspól - bilun hjá Hamilton

Nico Rosberg á leið til ráspólsins í Sotsjí.
Nico Rosberg á leið til ráspólsins í Sotsjí. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól rússneska kappakstursins. Annar varð Sebastian Vettel hjá Ferrari og þriðji Valtteri Bottas hjá Williams sem færist á annan rásstað vegna refsingar Vettels.

Þriðja og síðasta tímalotan var eiginlega formsatriði fyrir Rosberg eftir að ljóst var að Lewis Hamilton liðsfélagi hans æki ekki í lokalotunni vegna bilunar í vélbúnaði. Varð bíllinn skyndilega aflvana þar sem búnaður er beislar og endurnýtir bremsuaflið bilaði. Er það  sama bilun og hann glímdi við í síðasta móti, í Sjanghæ í Kína.

Þetta var annar ráspóllinn í röð hjá Rosberg, sem einnig hóf keppni af fremsta rásstað í Sjanghæ í Kína fyrir hálfum mánuði. Þá var þetta 24. póllinn á ferli hans og hefur Rosberg þar með skipað sér á pall með Niki Lauda og Nelson Piquet sem hvor um sig vann 24 ráspóla á sínum tíma. 

Vettel nýtur ekki þess að hefja leik á fremstu rásröð þar sem hann færist aftur um fimm sæti, niður í það sjöunda, vegna gírkassaskipta eftir æfingarnar í gær.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari klúðraði í lokabeygjunum möguleika á að komast upp fyrir landa sinn Bottas og erfa rásstað Vettels. Varð hann fjórði.

Í sætum fimm til tíu urðu - í þessari röð - Felipe Massa hjá Williams, Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Sergio Perez hjá Force India, Daniil Kvyat hjá Red Bull, Max Verstappen hjá Toro Rosso og Hamilton, sem ekkert ók sem fyrr segir.

Harður slagur var um að komast inn í lokalotuna og þeir sem biðu naumlega lægri hlut í þeim átökum voru Carlos Sainz hjá Toro Rosso, Jenson Button hjá McLaren, Nico Hülkenberg hjá Force India og Fernando Alonso hjá McLaren.

Valtteri Bottas hjá Williams á leið til annars sætis í …
Valtteri Bottas hjá Williams á leið til annars sætis í tímatökunni í Sotsjí. AFP
Kimi Räikkönen varð fjórði í tímatökunni en hefur keppni þriðji.
Kimi Räikkönen varð fjórði í tímatökunni en hefur keppni þriðji. AFP
Sebastian Vettel á leið til annars sætis í tímatökunni í …
Sebastian Vettel á leið til annars sætis í tímatökunni í Sotsjí en hann færðist síðan niður í sjöunda sæti á rásmarki morgundagsins. ALEXANDER NEMENOV
Fernando Alonso tók þátt í spennandi keppni um sæti í …
Fernando Alonso tók þátt í spennandi keppni um sæti í lokalotunni í tímatökunni í Sotsjí. AFP
Heimamaðurinn Daniil Kvyat hjá Red Bull slapp með naumindum inn …
Heimamaðurinn Daniil Kvyat hjá Red Bull slapp með naumindum inn í lokalotu tímatökunnar í Sotsjí. AFP
Jolyon Palmer var allt þar til í síðustu tilraun á …
Jolyon Palmer var allt þar til í síðustu tilraun á undan Renaultfélaga sínum Kevin Magnussen. AFP
Romain Grosjean hjá Haas beið lægri hlut í hörðum slag …
Romain Grosjean hjá Haas beið lægri hlut í hörðum slag um sæti í lokalotu tímatökunnar í Sotsjí. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert