Styrkir stöðu sína í titilslagnum

Nico Rosberg er kominn með vænlegae stöðu gagnvart keppinautunum um …
Nico Rosberg er kominn með vænlegae stöðu gagnvart keppinautunum um titil heimsmeistara ökumanna í formúlu-1. AFP

Með sigrinum í rússneska kappakstrinum í dag hefur Nico Rosberg aukið enn frekar forskot sitt á heimsmeistarann Lewis Hamilton í stigakeppninni um meistaratitilinn.

Rosberg hefur landað 100 stigum en Hamilton 57 og munurinn því 43 stig. Fyrir kappaksturinn í Sotsjí í dag var munurinn 75:39 Rosberg í vil.

Þá klifraði Kimi Räikkönen úr fimmta sæti í það þriðja og er með 43 stig gegn 36 stigum Daniels Ricciardo og 33 stigum Sebastians Vettel. Ricciardo hafnaði utan stiga og Vettel féll úr leik á fyrsta hring svo hvorugur bætti við sig í dag.

Felipe Massa er kominn með tærnar þar sem þessir tveir hafa hælana því hann er nú með 32 stig í sjötta sæti stigalistans. Romain Grosjean hækkaði sig úr áttunda sæti í það sjöunda og er með 22 stig.

Þá lagaði Valtteri Bottas stöðu sína og hefur lyft sér úr tíunda sæti í það níunda og er með 19 stig í stað 7 áður.

Fjórir ökumenn unnu sín fyrstu stig á árinu í kappakstrinum í Sotsjí; Fernando Alonso, Jenson Button, Kevin Magnussen og Sergio Perez.

Alonso er í ellefta sæti með 8 stig, Magnussen í því tólfta með 6 stig, Perez í því fimmtánda með tvö stig og Button í því sextánda með eitt stig. Varamaður McLaren, Stoffel Vandoome, vann eitt stig er hann leysti Alonso af í kappakstrinum í Abu Dhabi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert