Rosberg á methraða í Spielberg

Nico Rosberg leikur sér að fótbolta fyrir æfinguna í Spielberg …
Nico Rosberg leikur sér að fótbolta fyrir æfinguna í Spielberg í morgun. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes setti í morgun besta brautartímann sem nokkru sinni hefur náðst í Spielberg. Þar fer Austurríkiskappaksturinn fram um helgina.

Brautin var malbikuð eins og hún leggur sig upp á nýtt fyrir mótið og brúkaði Rosberg mýkstu dekkjagerðina á methringnum. Ók hann á 1:07,373 mínútum.

Liðsfélagi hans Lewis Hamilton ók næsthraðast en var næstum fjórum tíundu úr sekúndu lengur í förum (1:07,730). Á æfingunni snarsneri Hamilton bíl sínum eitt sinn á útleið úr þriðju beygju brautarinnar.

Ferrarimennirnir Sebastian Vettel (1:08,022) og Kimi Räikkönen (1:08,222)  áttu þriðja og fjórða besta tímann og Daniel Ricciardo hjá Red Bull þann fimmta besta, (1:08,528).

Í næstu sætum urðu     Carlos Sainz hjá Toro Rosso (1:08,803), Felipe Massa hjá Williams (1:08,824), Max Verstappen hjá Red Bull (1:08,962), Daniil Kvyat hjá Toro Rosso (1:08,990) og Valtteri Bottas hjá Williams fyllti fyrsta tuginn á tímanum 1:08,998 mín.

Verstappen átti brösugar stundir og tók tvisvar flugið á nýjum beygjubríkum út úr beygjum og varð ekki skemmt. Sagði hann „ótrúlegar“ og „hættulegar“ í talstöðinni. Í fyrra skiptið skemmdi hann framvæng sinn á lei ðút úr áttundu beygju og í seinna tilvikinu flaug hann út í sandgryfju með brotna fjöðrun.


 

Nico Rosberg á ferð á æfingunni í Spielberg í morgun.
Nico Rosberg á ferð á æfingunni í Spielberg í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert