Hamilton eykur forskotið

Pallmenn í Hockenheim (f.v.) Ricciardo, Hamilton og Verstappen.
Pallmenn í Hockenheim (f.v.) Ricciardo, Hamilton og Verstappen. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes fór með auðveldan sigur af hólmi í þýska kappakstrinum ói Hockenheim eftir að hafa náð forystunni á fyrstu metrunum er ráspólshafinn og liðsfélaginn Nico Rosberg klúðraði ræsingu sinni annað mótið í röð. 

Rosberg hafnaði í fjórða sæti en í öðru og þriðja urðu Daniel Ricciardo og Max Verstappen hjá Red Bull. Er það í fyrsta sinn frá í ungverska kappakstrinum fyrir rúmu ári, að liðið á báða ökumenn sína á verðlaunapalli. Þá var það hlutskipti Ricciardo og Daniil Kvyat.

Eftir að hafa náð forystunni á fyrstu metrunum byggði Hamilton smám saman upp gott forskot. Þurfti hann aldrei að horfa í baksýnisspegla til að gá að keppinautunum, hann hvarf þeim tiltölulega fljótt úr augsýn. Vann sinn sjötta mótssigur á keppnistíðinni.

Rosberg, sem unnið hefur fimm mót, glímdi við mikið spól í ræsingunni og átti í það miklum vandræðum að ná nægu veggripi að ökumenn Red Bull komust einnig fram úr honum á fyrstu metrunum. Háði hann þó um tíma rimmu um pallsæti við Verstappen en var refsað fyrir að knýja hann út úr brautinni í beygju. Í raun óskiljanlega hörð refsing en 5 sekúndum var bætt við aksturstíma hans og bar honum að taka það út í dekkjastoppi.

Eitthvað virkuðu skeiðklukkur Mercedes illa því einar 8-10 sekúndur liðu í stoppinu áður en hafist var handa um dekkjaskipti. Eftir þetta átti Rosberg enga möguleika og sparaði því sem mest bíl sinn eftir það í fjórða sæti. Fer hann inn í sumarhlé formúlunnar eflaust vonsvikinn vegna tveggja misheppnaðra móta í röð þar sem hann hefur meðal annars misst forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Eftir kappaksturinn er Hamilton með 218 stig í þeirri keppni gegn 197 stigum Rosberg. Munar því 19 stigum á þeim. Í þriðja sæti er Ricciardo með 133 stig, í því fjórða Kimi Räikkönen með 122 stig, Sebastian Vettel í því fimmta með 120 stig og Verstappen er sjötti með 115 stig. Aðrir ökumenn eru með langtum minna; í til dæmis næsta sæti er Valtteri Bottas hjá Williams með 58 stig. 

Ökumenn Ferrari áttu annars í miklum erfiðleikum að halda í við þá sem á undan voru og miðað við yfirlýsingar Vettels fyrir mót fara Ferrarimenn vonsviknir inn í fjögurra vikna fríið  sem nú tekur við hjá keppnisliðum formúlunnar. Yfir endamarkið óku Räikkönen og Vettel rúmlega hálfri mínútu á eftir Hamilton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert