Hamilton vann rigningarmaraþonið

Lewis Hamilton fagnar sínum fyrsta sigri í brasilíska kappakstrinum, í …
Lewis Hamilton fagnar sínum fyrsta sigri í brasilíska kappakstrinum, í dag. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna sigur í Brasilíukappakstrinum en rúmar þrjár klukkustundir tók að ljúka honum vegna óhappa en tvisvar var keppnin stöðvuð og fjórum sinnum kom öryggisbíllinn út í brautina.

Í öðru sæti varð Nico Rosberg, einnig hjá Mercedes, og þriðji Max Verstappen hjá Red Bull sem sýndi snilldartilþrif í bleytunni og var tvímælalaust maður dagsins.

Rosberg lagði aldrei til atlögu gegn Hamilton heldur ók af öryggi upp á annað sætið. Fljótlega eftir að keppnin var endurræst fyrsta sinni vann Verstappen sig fram úr Rosberg en tapaði sætinu aftur og féll um tíma vegna misheppnaðrar dekkjaherfræði niður undir tíunda sæti.  

Þegar aðeins eitt mót er eftir af keppnistíðinni hefur Rosberg 12 stiga forskot á Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, 367:355. Dugar honum þriðja sætið í Abu Dhabi þótt Hamilton sigri þar; Rosberg vinnur samt titilinn.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Sergio Perez hjá Force India, Sebastian Vettel hjá Ferrari, Carlos Sainz hjá Toro Rosso, Nico Hülkenberg hjá Force India, Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Felipe Nasr hjá Sauber og Fernando Alonso á McLaren.

Með árangri heimamannsins Nasr vann Sauber sín fyrstu stig á vertíðinni, eða tvö,  og hreppti tíunda sætið af Manor, sem hefur eitt. Nýliðinn Esteban Ocon hjá Manor var lengi vel í stigasæti en missti marga ökumenn fram úr sér á lokahringjunum og hafnaði í ellefta sæti, einu sæti frá stigi.

Talsvert brottfall varð vegna rigningarinnar og rennblautrar brautarinnar. Brottfallið byrjaði fyrir startið því á hringnum á leið út á rásmarkið flaut Haasbíll Romain Grosjean upp, snarsnerist og stórskemmdist á öryggisvegg. Þá var kappaksturinn ekki orðin langur þegar Marcus Ericsson hjá Sauber ók upp á blauta og sleipa beygjubrík og endaði á öryggisvegg.

Fljótlega var svo komið að Kimi Räikkönen sem einnig flaut upp undir lok hringsins og skall harkalega á vegg. Loks féll heimamaðurinn Felipe Massa hjá Williams úr leik á sömu slóðum og Grosjean og Ericsson. Gekk hann heim í bílskúr og undir lófaklappi landa hans í áhorfendastúkunum sem þökkuðu honum þar með margar gleðistundir sem hann veitti þeim á löngum ferli í formúlu-1.

Sömuleiðis klöppuðu liðsmenn Mercedes fyrir Massa er hann gekk framhjá skúr þeirra á leið í bílskúr Williams. Hið sama gerðu starfsmenn Ferrari sem flestir hverjir eru gamlir samstarfsmenn Massa frá veru hans hjá Ferrari.

Frá upphafi kappakstursins rigndi stanslaust í Sao Paulo.
Frá upphafi kappakstursins rigndi stanslaust í Sao Paulo. AFP
Tvisvar sinnum var keppnin stöðvuð og tvö hlé til viðbótar …
Tvisvar sinnum var keppnin stöðvuð og tvö hlé til viðbótar gerð á keppninni er öryggisbíll var sendur út í brautina vegna óhappa. AFP
Kimi Räikkönen flaut upp og hafnaði á öryggisvegg með þeim …
Kimi Räikkönen flaut upp og hafnaði á öryggisvegg með þeim afleiðingum að hann féll úr leik. AFP
Regnhlífar voru á lofti á heiðurshring ökumanna fyrir keppnina í …
Regnhlífar voru á lofti á heiðurshring ökumanna fyrir keppnina í Sao Paulo. AFP
Liðsmenn Mercedes samfagna með Lewis Hamilton.
Liðsmenn Mercedes samfagna með Lewis Hamilton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert