Verstappen fyrstur í bleytunni

Fyrsta æfing keppnishelgarinnar í Sjanghæ í Kína varð endaslepp því tvisvar var gert á henni langt hlé vegna rigningar og skyggnis. Aðstæður leyfðu ekki þyrluflug ef á þurfti að halda vegna slysa.

Max Verstappen hjá Red Bull hafði náð besta tíma er æfingin var stöðvuð öðru sinni. Ók hann hringinn best á 1:50,491 mínútum. Annar varð Felipe Massa hjá Williams á 1:52,086 mín. og þriðji liðsfélagi hans Lance Stroll á 1:52,507 mín.

Í næstu sætum urðu Carlos Sainz hjá Toro Rosso (1:52,840), Romain Grosjean hjá Haas (1:53,039), Daniil Kvyat hjá Toro Rosso (1:53,314), Fernando Alonso hjá McLaren (1:53,520), Daniel Ricciardo hjá Red Bull (1:54,038), Valtteri Bottas hjá Mercedes (1:54,664) og Kevin Magnussen hjá Haas (1:55,104).

Magnussen ók flesta hringi eða átta en Verstappen aðeins fjóra. Nokkrir ökumenn óku aðeins einn til tvo hringi og settu engan tíma. Í þeim hópi voru Ferrarimennirnir Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen og Lewis Hamilton hjá Mercedes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert