Hamilton setti brautarmet

Lewis Hamilton ekur niður að höfninni í Mónakó, nýkominn út …
Lewis Hamilton ekur niður að höfninni í Mónakó, nýkominn út úr undirgöngunum á leiðinni ofan af spilavítistorginu. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes ók hraðast á fyrri æfingu dagsins í Mónakó og setti met í leiðinni; aldrei hefur hringurinn þar verið ekinn jafn hratt.

Hamilton ók hringinn best á 1:13,425 mínútum og var Sebastian Vettel 0,2 sekúndum lengur í förum í öðru sæti á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar og 0,3 sekúndum á undan Max Verstappen hjá Red Bull.

Valtteri Bottas hjá Mercedes var um tíma fljótastur en klárað æfinguna á fjórða besta tímanum. Í kjölfar hans sigldu Daniel Ricciardo á  Red Bull, Carlos Sainz á Toro Rosso, Kimi Räikkönen á Ferrari, Sergio Perez á Force India,  Daniil Kvyat á Toro Rosso og Esteban Ocon hjá Force india, sem átti tíunda besta hringinn.

Til marks um muninn á æfingunni var Räikkönen næstum sekúndu lengur en Hamilton með hringinn.

Jenson Button sneri aftur til keppni sem afleysingamaður Fernando Alonso hjá McLaren. Hafði hann ekki snert á keppnisbíl frá í fyrra en varð engu að síður í 14. sæti af 20 á æfingunni. Var hann 1,5 sekúndum lengur í förum en Hamilton.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert