Bottas ögn á undan Hamilton

Valtteri Bottas hjá Mercedes ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Sivlerstone og var 78 þúsundustu úr sekúndu fljótari en liðsfélaginn Lewis Hamilton. Þriðja besta hringinn átti Max Verstappen hjá Red Bull en var 0,4 sekúndum lengur í förum.

Bottas ók sinn besta hring á 1:29,106 mínútum, en Hamilton á 1:29,184 og Verstappen 1:29,604 mín. Báðir ökumenn Mercedes voru undir ráspólstímanum frá í fyrra. 

Daniel Ricciardo hjá Red Bull prófaði ýmsar nýjar útfærslur í yfirbyggingu bílsins sem ætlað er að bæta skilvirkni loftsreymis um hana. Átti hann að lokum fjórða besta tímann (1:29,942) og í næstu tveimur sætum á lista yfir hröðustu hringi urðu Kimi Räikkönen (1:30,137) og Sebastian Vettel (1:30,517) hjá Ferrari.

Fyrsta tuginn á listanum fylltu svo Daniil Kvyat (1:30,895) hjá Toro Rosso, Fernando Alonso (1:30,993) hjá McLaren, Felipe Massa (1:30,999) hjá Williams og Stoffel Vandoorne (1:31,041) hjá McLaren.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert