Hamilton réði ferðinni

Sigurfánanum veifað er Lewis Hamilton ekur yfir endamarkið í Spa-Francorchamps …
Sigurfánanum veifað er Lewis Hamilton ekur yfir endamarkið í Spa-Francorchamps rétt í þessu. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes varðist fimlega öllum atlögum Sebastians Vettel hjá Ferrari og sigraði af öryggi í belgíska kappakstrinum rétt í þessu. Þriðji í mark varð óvænt Daniel Ricciardo hjá Red Bull.

Vettel lét til skarar skríða strax á fyrsta hring og einnig strax eftir að öryggisbíll var farinn úr brautinni þegar 11-12 hringir voro eftir í mark af 44. Komst hann í bæði skipti uppað hlið Hamiltons en kjalsogið nýttist honum ekki til að komast fram úr fyrir næstu beygju.

Viss spenna var í keppni topp mannanna tveggja því allan kappaksturinn skildu innan við tvær sekúndur þá að. Óku þeir alla leið í botni en röðin hélst óbreytt þar sem hvorugur gerði nein akstursmistök.

Var þetta 200. kappaksturiinn sem Hamilton þreytir í formúlu-1, en hann hefur unnið 58 þeirra. Með úrslitunum helmingaði hann forskot Vettels í keppninni um heimsmeistaratitil ökumann en á þeim munar nú 7 stigum.

Þrátt fyrir að þurfa stoppa og taka út 10 sekúndna akstursvíti fyrir að hafa ekki hægt ferðina undir gulum flöggum hélt Kimi Räikkönen fjórða sætinu. Landi hans Valtteri Bottas hjá Mercedes tapaði stórt er hann varð að sjá þá Ricciardo og Räikkönen skjótast fram úr sér í lok langa kaflans eftir Rauðavatnsbeygjuna. Við það féll hann úr þriðja sæti í það fimmta og átti aldrei möguleika á að reyna ná því sæti aftur.

Nick Hülkenberg hjá Renault átti góðan dag og varð sjötti og hið sama er að segja um Romain Grosjean hjá Haas sem varð sjöundi. Felipe Massa klifraði jafnt og þétt upp röðina og endaði í áttunda sæti, rétt á undan Esteban Ocon hjá Force India og Carlos Sainz hjá Toro Rosso sem varð í tíunda og síðasta stigasætinu.

Max Verstappen hjá Renault hafði ekki ekið lengi er aflrásin brást honum svo hann féll úr leik. Er það í sjötta sinn í síðustu 10 mótum sem það verður hans hlutskipti í keppni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert