Kimi leitaði til Sauber

Kimi Räikkönen klæðist ekki lengur Ferrarifötum í Búdapest.
Kimi Räikkönen klæðist ekki lengur Ferrarifötum í Búdapest. AFP

Kimi Räikkönen átti frumkvæði að viðræðum við Sauber en þangað sneri hann sér og spurði hvort liðið ætti laust sæti fyrir sig, eftir að Ferrari hafði látið hann vita að hann yrði ekki ökumaður þar á bæ 2019.

Pláss myndaðist er Ferrari ákvað að kalla Charles Leclerc til starfa en hann hafði verið í hópi ungra ökumanna sem hlotið hafa uppeldi og skólun undir verndarvæng Ferrari.

Almennt var talið að Räikkönen myndi hengja keppnishjálminn upp á snaga fengi hann ekki framlengdan samning við Ferrari. En að sögn umboðsmannsins Steve Robertson fannst Kimi áfram eiga erindi í formúlu-1 þrátt fyrir árin 39. Beið hann ekki eftir fyrirspurnum um krafta sína, heldur rauk af eigin hvötum til Sauber, en með því liði hóf hann feril sinn í formúlu-1 árið 2001.

Liðsfélagi Räikkönen hjá Sauber verður annar ökumaður útskrifaður úr ökumannaakademíu Ferrari, Antonio Giovinazzi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert