Spánverjar tólfta þjóðin til að tryggja sér EM-sæti

Sergio Ramos fagnar þriðja marki Spánverja í kvöld, sem hann …
Sergio Ramos fagnar þriðja marki Spánverja í kvöld, sem hann skoraði. Reuters

Spánverjar urðu í kvöld tólfta þjóðin til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í knattspyrnu með því að vinna sannfærandi sigur á Svíum, 3:0. Svíar og Norður-Írar bítast um annað sætið í riðlinum en Norður-Írar lögðu Dani, 2:1, í kvöld. Þá unnu Lettar sigur á Liechtenstein, 4:1, og sáu til þess að Ísland myndi ekki lenda í botnsæti riðilsins.

Spánverjar komust yfir á 14. mínútu í kvöld þegar Joan Capdevila skoraði. Andrés Iniesta bætti við marki á 38. mínútu og Sergio Ramos innsiglaði sigurinn með marki á 64. mínútu.

Spánverjar eru með 25 stig fyrir lokaumferðina, Svíar 23, Norður-Írar 20, Danir 17, Lettar 12, Íslendingar 8 og Liechtensteinar 7 stig en þeir síðastnefndu hafa lokið leikjum sínum. Á miðvikudag mætast Spánn - Norður-Írland, Svíþjóð - Lettland og Danmörk - Ísland. Svíum dugar jafntefli við Letta til að komast á EM en tapi þeir, verða Norður-Írar að vinna á Spáni til að krækja í EM-sætið.

Liðin sem eru komin áfram eru Grikkland, Tékkland, Þýskaland, Rúmenía, Ítalía, Frakkland, Holland, Króatía, Pólland og Spánn, ásamt gestgjöfunum, Sviss og Austurríki. Fjögur sæti eru ennþá laus og um þau berjast:

A-riðill: Portúgal, Finnland og Serbía.
C-riðill: Tyrkland og Noregur.
E-riðill: England og Rússland.
F-riðill: Svíþjóð og Norður-Írland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert